142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Stefna Pírata í þessu máli er skýr, að ljúka skuli aðildarviðræðum og setja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar að segja ykkur að í aðdraganda kosninga áttum við píratar fund með aðalsamningamanni Íslands við Evrópusambandið. Þar var útlistað fyrir okkur að verið væri að opna ákveðna pakka, semja um þá, breyta lögum á Íslandi til þess annars vegar að aðlaga lög á Íslandi við samninginn sem við nú þegar erum aðilar að, um Evrópska efnahagssvæðið, en hins vegar væri líka verið að aðlaga lög Íslands að lögum Evrópusambandsins. Þetta er því aðlögunarferli, ekki bara samninga- og aðildarviðræðuferli.

Þetta er nokkuð sem kæmi í ljós og fólk mundi þurfa að meta stöðuna hvað það varðar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda aðildarviðræðunum áfram. Það væri hreinlegast að fara í þá umræðu og kanna málið. Vill þjóðin halda áfram að breyta lögum Íslands í átt til laga Evrópusambandsins þegar kemur að atriðum sem eru ekki innan EES-sáttmálans?

Stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessu máli er náttúrlega að ganga ekki þarna inn. Maður skilur að þeir vilji ekki halda áfram með ferli þar sem íslensk löggjöf er aðlöguð löggjöf Evrópusambandsins. Svo spyr maður sig: Hvað segir í þingsályktuninni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem Alþingi samþykkti 16. júlí 2009?

Ef ég les það, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Þá er spurning: Það að gera hlé á samningnum, er það brot á sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni eins og hefur verið nefnt hérna og fram kemur í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar? Það að gera hlé á aðildarviðræðum um einhvern óákveðinn tíma, er það brot á þingsályktuninni? Er verið að brjóta gegn þingsályktuninni að ganga gegn henni? Við getum athugað það.

Svo kemur fram í nefndaráliti meiri hluta frá 2009, með leyfi forseta:

„Skipulag viðræðna og hlutverk framkvæmdarvaldsins.

Meðal þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér eru upplýsingar um skipulag aðildarviðræðna nokkurra þjóða sem áður hafa gengið í gegnum þær, svo og skipulag viðræðna Króata við ESB undanfarið þótt þeim viðræðum hafi nú verið frestað um óákveðinn tíma.“

Þetta er eitt af því sem var miðað við. Ég spyr því að ég veit ekki, hvort verið sé að brjóta gegn þingsályktuninni frá júlí 2009, um að Alþingi álykti að fara skuli í þessa aðildarviðræður við Evrópusambandið, með því að fresta viðræðum um óákveðinn tíma. Fróðari menn verða að fræða mig um það.

Það væri náttúrlega hreinast og beinast að samþykkja þingsályktunartillögu herra Össurar Skarphéðinssonar frá því í sumar um þetta mál, hvort aðildarviðræðunum skuli haldið áfram, og setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru önnur atriði nefnd þar sem stjórnarflokkarnir eru kannski ekki hrifnir af og þeir gætu þá lagt fram sína eigin þingsályktunartillögu eða bara sagt að þeir ætli að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, eins og þeir hafa sagt, þ.e. að þeir muni ekki halda ferlinu áfram nema slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Þá yrði aðildarviðræðunum mögulega haldið áfram. Við vitum það fyrst ef þetta verður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort viðræðunum skuli haldið áfram. Meiri hluti þjóðarinnar er með því, þannig að í vor mundi meiri hluti þjóðarinnar eflaust segja: Já, við skulum halda þessu ferli áfram, við skulum klára það, við skulum kjósa um það. Og þegar síðan yrði kosið um fyrirliggjandi aðildarsamning mundum við líka vita, eins og staðan er núna, að meiri hluti þjóðarinnar væri á móti. Þetta væri því mjög heillavænlegt ferli, þá gætum við fengið þetta mál út af borðinu. Þjóðin mun mjög líklega segja nei við þessu og sérstaklega ef efnahagsáform ríkisstjórnarinnar standa, ef þeim tekst að koma samfélaginu á koppinn og láta hjól atvinnulífsins snúast. Evrópa er ekkert að fara að gera það á næstunni. Ef þeim tekst að gera það á Íslandi, segja píratar á Evrópuþinginu mér að engin þjóð hafi gengið inn í Evrópusambandið þegar uppsveifla hefur verið í efnahagslífinu. Ef ríkisstjórnin treystir sér til þess að koma uppgangi efnahagslífsins í gang þá ætti hún að treysta sér til að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, klára dæmið og þá getum við hætt að ræða þetta næstu tíu árin.