142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að vísbendingar væru um að meiri hluti þjóðarinnar vildi ekki ganga í Evrópusambandið, og vitnaði til skoðanakannana. Reyndar mætti benda hæstv. ráðherra á að miðað við skoðanakannanir vill meiri hluti þjóðarinnar aðra ríkisstjórn en þá sem er nú er við völd, en við skulum ekki dvelja of mikið við það. Það er í raun ekki hægt að fara eftir skoðanakönnunum í þessum efnum. Það er hins vegar hægt að fara eftir bestu mögulegu og fáanlegu upplýsingum og bestu mögulegu og fáanlegu upplýsingarnar um kosti þess að ganga í Evrópusambandið fáum við með því að ljúka viðræðunum og leggja þann samning sem upp úr því kæmi í dóm þjóðarinnar. Þar hefur vægi mitt, sem er frekar á því að ganga í Evrópusambandið — vægi míns atkvæðis er alveg jafnmikið að afli og vægi atkvæðis hæstv. utanríkisráðherra og hvers annars Íslendings. Það er hreinlegasta leiðin til að leiða til lykta þá spurningu sem íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag hefur glímt við í langan tíma og í raun og veru í allt of langan tíma.

Virðulegi forseti. Ég vann við það á árum áður sem fréttamaður að tala við stjórnmálamenn og reyna að knýja þá svara. Eins og hæstv. utanríkisráðherra veit og velflestir hér inni og flestir þeir sem fylgjast með þessari umræðu þá eru til mjög margar aðferðir til að svara ekki spurningum. Þær spurningar sem hér eru uppi á borðum, og sú spurning sem svífur yfir vötnum, er auðvitað eitthvað sem við eigum að leitast við að fá svör við. Það eru nokkrar aðferðir til að knýja stjórnmálamenn til svara. Það vita þeir sem hafa starfað sem fréttamenn. Ein ágæt aðferð við það er til dæmis að þrengja svið spurningarinnar og reyna að fá þann sem spurður er til að skilgreina ástandið. Ef viðræðunum hefur ekki verið slitið og samt á ekki að ganga inn í Evrópusambandið væri ágætt að fá að vita það hjá hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann skilgreinir stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu akkúrat núna.

Til að ég útskýri þetta þá hefur málflutningurinn hjá ríkisstjórninni verið býsna þversagnarkenndur á köflum í þessum efnum. Tökum sem dæmi IPA-styrkina sem komu til tals hér áðan. Þar segja talsmenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, í aðra röndina að ekki standi til að Íslandi gangi í Evrópusambandið, en í hina röndina finnst þeim furðulegt að Evrópusambandið hafi dregið IPA-styrkina til baka vegna þess að Ísland sé enn þá með stöðu umsóknarríkis. Það sér hver maður að þetta stangast fullkomlega á og gengur ekki upp.

Ég vil í lok máls míns rifja upp hvaða ástæður mér finnast skipta máli í svarinu við spurningunni um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Í fyrsta lagi erum við evrópsk menningarþjóð og eigum erindi í samstarfi með öðrum Evrópuþjóðum. Í öðru lagi tel ég að alvarlegasta framsal fullveldisins felist í óbreyttum EES-samningi, að mesti hugsanlegi lýðræðishalli sem við getum búið við sé fólginn í óbreyttu ástandi þar sem við tökum við löggjöf, tilskipunum, reglugerðum án aðkomu og innleiðum í íslensk lög. Í þriðja lagi hefur gjaldmiðill Evrópusambandsins, evran, ótvíræða kosti í för með sér umfram það að búa við óbreytt ástand í gjaldeyrismálum. Þetta eru þrjú atriði sem skipta mjög miklu máli.

Í fjórða lagi vil ég einfaldlega segja, og það er lykilatriði í mínum huga, að þau vandamál sem heimurinn glímir við, heimsbyggðin öll, hvort sem það er á vettvangi umhverfismála, friðar- og mannréttindamála, hvort sem það er á vettvangi fjármálaheimsins, hvort sem fjallað er um framleiðslu eða verslun — þá verða vandamál heimsbyggðarinnar ekki leyst á vettvangi þjóðríkisins. Þau verða einungis leyst í samstarfi fullvalda þjóða í samtökum á borð við Evrópusambandið. Þar eigum við fullt erindi og þar á rödd okkar að hljóma.