142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum Bjartrar framtíðar, Pírata, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna fyrir málefnalega umræðu. Það er mikilvægt mál sem við erum að ræða hér. Þetta er eitt af þeim málum sem Alþingi á mikið undir að haldið sé rétt á og með skipulegum hætti og um það ríki trúverðugleiki og traust á sama tíma og fylgt er skýrri stefnu. Ég vildi því nota síðustu mínútuna til að tæpa á nokkrum atriðum sem fram komu í máli þingmannanna þótt ég nái augljóslega ekki að fara yfir allt á svo stuttum tíma.

Hér var meðal annars spurt af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um næstu skref. Næstu skref eru augljóslega þau að fá þá skýrslu sem oft hefur verið nefnd til umræðu hér á Alþingi, vonandi í haust, eins og ég hef áður greint frá.

Allt frá upphafi aðildarferlisins hefur skort verulega á að þjóðin hafi verið spurð eins og við höfum talað um áður. Þjóðin stóð ekki að baki þeirri ákvörðun sem var tekin á Alþingi. Við vitum það. Því var meira að segja hafnað að leita álits þjóðarinnar og þar af leiðandi var það Alþingi sem tók þá ákvörðun að fara af stað í þessa vegferð. Ég tel því eðlilegt að málið komi aftur til Alþingis til umfjöllunar þegar umræddri skýrslu hefur verið skilað.

Við vitum að óraunhæfar væntingar voru gefnar af sumum um að viðræðum mundi ljúka fljótt og örugglega og að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um samning við lok síðasta kjörtímabils, en við vitum hver staðan er núna. Við vitum líka að þinglegur styrkur meiri hlutans sem tók ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var byggður á sandi, ætla ég að leyfa mér að segja, og lyktaði af pólitískum hrossakaupum milli meirihlutaflokka.

Hv. þm. Róbert Marshall spurði hér áðan um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu í dag. Staðan er einfaldlega sú að við eigum í mjög góðum tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið og munum eiga áfram. Ég er sammála hv. þingmanni um að Ísland er að sjálfsögðu Evrópuþjóð. Við eigum menningarleg og söguleg tengsl við Evrópuríkin og munum að sjálfsögðu efla þau áfram. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að núverandi ríkisstjórn talar fyrir þessari nálgun og er metnaðarfull gagnvart Evrópusambandinu. Ég veit að margir þingmenn eru því sammála að halda þannig á málum. Við skulum því leggjast saman á árarnar og styrkja hagsmunagæslu okkar líkt og lagt var til í góðri skýrslu um Evrópumál frá árinu 2007 sem var samþykkt sem þingsályktun sl. vor.

Við eigum að geta spilað úr sterkri stöðu í dag. Í dag þekkjum við Evrópusambandið og innviði þess mun betur en við gerðum áður. Ég vona líka að Evrópusambandið þekki okkur mun betur en áður. Þekkingin nýtist okkur óhjákvæmilega í því starfi sem fram undan er. Á þetta bæði við um EES-samninginn sem og þau fjölmörgu sóknarfæri sem við hyggjumst vinna með. Það má því segja að hið ötula starf stjórnsýslunnar fari ekki forgörðum heldur mun ríkisstjórnin nýta þá vinnu og krafta ötullega.

Ég vona að þingmenn geti verið mér sammála um það, hvar svo sem þeir standa í þessu máli, að með því að fela óháðri háskólastofnun áðurnefnda úttekt um stöðu Evrópusambandsins sé því atriði komið þannig fyrir að það sé hafið yfir pólitískt karp og verði jafnvel upphafi að rökföstu samtali. Það er mitt markmið með því að gera þetta á þennan hátt.

Þingmönnum sumum hverjum er nú orðið meira annt um að fela þjóðinni að skera úr um hvort aðildarviðræður skulu halda áfram en ekki og þeim er jafnvel meira annt um það en þeim var áður. Minnist ég þá þess og vil minna á það að þjóðin var ekki spurð þegar farið var af stað í þetta ferli, eins og ég sagði hér áðan.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt að stefnan er skýr þótt einhverjir þingmenn virðist ekki geta lesið stjórnarsáttmálann með réttum augum og kjósa að snúa út úr honum. Það verður ekki haldið áfram viðræðum án þess að þjóðin ákveði það og þjóðin getur treyst því að hún verði spurð áður en haldið verður áfram. Á sama tíma er ljóst að stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr. Sú stefna sem samþykkt var á landsfundum þeirra er að hagsmunum Íslands sé betur komið fyrir utan Evrópusambandið.

Breytt stefnumörkun í aðildarferlinu hefur kallað á ýmsar ákvarðanir eins og þær sem snúa að IPA-styrkjum, ríkjaráðstefnum, samninganefnd, samningahópum o.s.frv. Það er ágætt að vekja athygli á því að Evrópusambandið hefur að sjálfsögðu sett sitt fólk í önnur verkefni. Það er ekkert athugavert við það.

Sumir þingmenn hafa gert mikið úr þessum ákvörðunum og talað um að núverandi ríkisstjórn sé að spilla einhverju. Það á auðvitað ekki við nein rök að styðjast. Það sem gert hefur verið er að framfylgja skýrri stefnu og, til að endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, engar skemmdir hafa verið unnar á einu eða neinu, aðildarumsóknin hefur ekki verið afturkölluð, engu hefur verið slitið. Það verður ekki gert án þess að ræða það fyrst í þinginu. Ég endurtek: Það er sérstök ákvörðun sem kallar á umfjöllun í þinginu að slíta viðræðunum. Ég ítreka það.

Ég hef skýrt ítarlega mína afstöðu til IPA-styrkjanna. Við vildum greiða fyrir því að unnt yrði að mæta væntingum þeirra sem lagt höfðu mikið á sig til að skipuleggja metnaðarfull og gagnleg verkefni og koma þeim til framkvæmda með fjárhagslegum stuðningi frá IPA. Evrópusambandið gat ekki fallist á þetta og þannig endaði það. Við leggjum áherslu á að þau verkefni sem voru þegar byrjuð haldið áfram og fái að klárast.

Aðeins varðandi lagalegt gildi þingsályktana. Það skrýtna er að reynt hefur verið að gera mikið úr því að ný ríkisstjórn fylgi ekki stefnu fyrri ríkisstjórnar. Það birtist í því að gagnrýnt er að við fylgjum ekki ályktunum Alþingis um aðildarumsókn sem samþykkt var af fyrri meiri hluta. Sérstakt lagaálit sem unnið var að beiðni stjórnarandstöðunnar svarar því skýrt. Það er ekkert athugavert við hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum. Álitið staðfestir það sem er viðtekið viðhorf fræðimanna, að þingræðisreglan ræður.

Virðulegi forseti. Það sem ég vil leggja áherslu á hér í lokin er einmitt það sem ég nefndi í upphafi. Þessi ríkisstjórn vil standa fyrir sterku sambandi við Evrópusambandið, að vísu á öðrum grunni en í tíð fyrri ríkisstjórnar. Við munum standa fyrir tillögugerð um að styrkja aðkomu okkar að EES-samningnum og öðrum samningum til að tala máli Íslands sterkari röddu en aðstæður hafa verið til að gera á undanförnum árum.