142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

fjárhagsstaða háskólanna.

[15:39]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil beina athyglinni að fjárhagslegri stöðu háskóla hér á landi. Háskólamenntun og rannsóknir eru grundvöllur atvinnusköpunar og velferðar samfélagsins. Undanfarin ár hafa orðið stórstígar framfarir í rannsóknum og sköpun þekkingar í háskólum hér. Á sama tíma hefur aðsókn að háskólanámi stóraukist en fjárframlög minnkað umtalsvert. Svo dæmi sé tekið af Háskóla Íslands hefur fjöldi nemenda aukist um 20% undanfarin fimm ár. Fjárframlög til skólans hafa á sama tíma minnkað um 20%. Fjárlög duga ekki til að standa undir kennslu og rekstri. Álag á starfsfólk og nemendur hefur aukist verulega. Kjör stundakennara eru óviðunandi og þar þarf að gera grundvallarbreytingu til að tryggja áframhaldandi framlag stundakennara.

Niðurskurður í fjárveitingum til háskóla getur ógnað mikilvægum vaxtarbroddum framtíðar og möguleikum okkar til að tryggja þekkingu, þjálfun og fagmennsku starfsstétta. Jafnframt getur niðurskurður haft neikvæð áhrif á tækifæri til samstarfs, rannsókna, tekju- og styrkjaöflunar erlendis. Nú þegar hafa háskólar hér á landi misst mjög hæft starfsfólk vegna óhóflegs álags, bágra launakjara og ófullnægjandi starfsaðstöðu.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvaða áætlanir liggi fyrir á næsta kjörtímabili til að tryggja opinberu háskólunum fullnægjandi rekstrarfé til þess að sá grunnur sem hefur verið lagður undanfarna áratugi veikist ekki.