142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

skuldaleiðrétting fyrir heimilin.

[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við áhugafólk um nýtt heimsmet í skuldaleiðréttingum höfum talsvert spurt að því eftir kosningar hvenær væri að vænta efnda á þeim kosningaloforðum sem gefin voru í skuldamálunum. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því fyrir sitt leyti hér á sumarþinginu að þess væri að vænta í nóvember þegar kæmu tillögur um aðgerðir frá starfshópum sem skipaðir hafa verið. Og hann hefur lýst því opinberlega að þetta séu ekki nefndir heldur starfshópar vegna þess að búið sé að taka ákvörðunina og verkefni þeirra sé að útfæra aðferðir við framkvæmdina. Ég hef þess vegna skilið það þannig að von sé á ákvörðunum í skuldamálunum í nóvember eða kannski desember eftir einhverja umfjöllun eða a.m.k. væri að vænta ákvarðana í skuldamálum á yfirstandandi ári, á árinu 2013.

Þá ber svo við að í umfjöllun um frumvarpið um Hagstofuna, sem er á dagskrá síðar í dag, kemur fram að upplýsinga um skuldastöðu einstaklinga sé ekki að vænta fyrr en í mars. Þegar við spyrjum hvort ekki eigi að nota þær upplýsingar til að taka ákvarðanir þá svara einstaka stjórnarliðar okkur því til að þó að niðurstöður þessara starfshópa eigi að liggja fyrir í nóvember þá verði ákvarðanir ekki teknar fyrr en hugsanlega eftir marsmánuð, þ.e. í apríl, maí eða síðar. Þá verði hægt að nota upplýsingarnar þegar ákvarðanirnar verða teknar.

Hæstv. forsætisráðherra hefur talað mjög skýrt í þessum efnum, því vil ég spyrja hvort ég hafi misskilið þetta eitthvað, hvort ekki sé að vænta ákvarðana á þessu ári, hvort það sé þannig að menn ætli ekki að taka ákvarðanir í þessum málum fyrr en í apríl/maí eða síðar. Og ef ákvarðana eða tillagna er ekki vænta á haustþinginu frá ríkisstjórninni er þeirra þá að vænta á vorþinginu 2014 eða haustþinginu 2014 eða jafnvel síðar, því að auðvitað getur þessi upplýsingaöflun dregist, sérstaklega ef hún fer fyrir dómstóla. En sannarlega þeim mun fyrr, þeim mun betra, hæstv. forsætisráðherra.