142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

skuldaleiðrétting fyrir heimilin.

[15:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Án þess að ég ætli í efnislega umfjöllun um hagstofumálið undir þessum dagskrárlið er rétt að halda því til haga við hæstv. forsætisráðherra að áhyggjur manna snúa að því hvort málið standist stjórnarskrá lýðveldisins og ég held að það séu eðlilegar áhyggjur að hafa í löggjafarsamkundunni sjálfri.

Ég skil svar hæstv. forsætisráðherra á þann veg, og bið hann að staðfesta það, að þó hann svari ekki fyrir þingið og hvenær þingið tekur sína ákvörðun þá standi það að vænta megi tillagna ríkisstjórnarinnar um nýtt heimsmet í skuldaleiðréttingum í nóvember nk. þegar starfshóparnir hafa útfært aðgerðir sem ákveðið hefur verið að fara í. Ef það er eitthvað seinna, þó það sé ekki nema í desember, þá bið ég hæstv. forsætisráðherra að taka það fram, að ekki sé talað um ef tillagna er ekki að vænta fyrr en á vorþinginu. Við vitum það öll í þessum sal að þúsundir og jafnvel tugþúsundir manna bíða úti í samfélaginu býsna óþreyjufullir og margir í erfiðri stöðu. Það skiptir máli að þeir viti hvaða tímasetningar gilda í þessum stóru og mikilvægu málum.