142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur þetta andsvar. Já, það er einmitt málið; til hvers eru þessar upplýsingar? Þurfum við virkilega á því að halda að fá stöðugar upplýsingar?

Ég hef áður tekið fram í ræðu að það voru endalaus viðvörunarorð úti í samfélaginu um að staðan væri orðin slæm, að við stefndum í mjög mikinn vanda ef ekki yrði gripið inn í af hæstv. ríkisstjórn eða bara af stjórnmálamönnum yfir höfuð og það tók enginn mark á því, það tók bara ekki nokkur maður mark á því. Ég velti fyrir mér: Taka núverandi stjórnvöld mark á þessu ef það hentar þeim ekki? Ég velti því líka fyrir mér.

Eins af því að talað var um skuldavanda og greiðsluvanda, ef ég má vitna aftur í hann Þorvarð Tjörva segir hann á Eyjunni 10. september:

„Það verður að gera greinarmun á greiðsluvanda og skuldavanda. Staðan er alvarlegust þegar hvort tveggja fer saman. Þegar það dregur svona ört úr skuldavanda heimila þá minnkar sá hópur sem er líklegur til að vera samtímis í greiðslu- og skuldavanda.“

En eins og ég hef sagt fer málið til afgreiðslu á morgun og lýðræðið ræður þar. Ég hef efasemdir um að við þurfum þetta. Ég tek mið af því sem fólk mér miklu vitrara hefur sagt. Ég byggi mínar niðurstöður á því og stend og fell með því.