142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[14:58]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Frú forseti. Það er mikilvægt að eignarréttur lántakenda sé varinn til hins ýtrasta og að ekki sé gengið að eignum fólks fyrr en í algjört óefni er komið. Einstaklingar sem taka lán með veði í íbúð sinni þurfa að vera upplýstir um rétt sinn og á hvaða forsendum lánið er tekið. Sömuleiðis að við verulegar vanefndir í greiðslu láns þurfi lánveitandi að leita réttar síns og krefjast nauðungarsölu samkvæmt réttlátum og gagnsæjum lögum og reglum miðað við rétt beggja, kröfuhafa og eiganda íbúðar.

Gerð hefur verið nokkur bragarbót undanfarið á upplýsingagjöf um þessi mál og markmiðið með þjónustu umboðsmanns skuldara er yfirleitt að fólk geti verið áfram í íbúð sinni. Stundum felur þó sala íbúðar í sér lausn vandans, bæði fyrir lántakanda og lánveitanda.

Í eftirleik hrunsins var mikilvægt að fresta nauðungarsölum en það er ekki heppilegt ástand til langs tíma. Brýnt er að bæta kjör lántakenda hér á landi almennt og þar með er talið stöðugt hagkerfi og stöðugur gjaldmiðill. Minnt er á að ef lántakandi sem lagt hefur íbúð sína að veði greiðir ekki í langan tíma af skuldbindingum sínum, leitar ekki samninga eða úrræða eða svarar ekki umleitunum þess efnis verður lánveitandi að geta gripið til lokaúrræðis sem er nauðungarsala. Mikilvægt er þó að fara með það úrræði, nauðungarsölu, með mikilli hófsemd og varúð.