142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í kjölfar hrunsins horfðust mörg heimili í augu við skulda- og greiðsluvanda vegna atvinnuleysis og gengishruns íslensku krónunnar sem olli gríðarlegu verðbólguskoti. Ítrekað var sett bann við nauðungarsölum í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og þegar búið var að útfæra úrræði eins og greiðsluaðlögun, sem er leið til þess að koma í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að fara í gjaldþrot, skuldaaðlögun, sem er mildara úrræði, 110% leiðina og eftir að fyrningartími krafna í gjaldþrotaskiptum var styttur í tvö ár — eftir að öll þessi úrræði höfðu verið smíðuð og búin til, því að við vorum mjög vanbúin af slíkum tækjum við hrunið, var ákveðið að nú væri opnað aftur á nauðungarsölur og mikilvægt væri að fólk leitaði í þau úrræði sem þegar væru til staðar.

Hæstv. ráðherra nefnir hér í máli sínu að mikilvægt sé að vekja ekki vonir sem ekki sé hægt að uppfylla og ég tek undir það. En það hafa verið vaktar upp miklar vonir. Við ætlum að fara í, að því er mér skilst, veraldarmet í skuldaniðurfærslu og það er eðlilegt að fólk sé ósátt við að verið sé að bera það út af heimilum sínum þegar slíkt er fram undan. Ég hefði því viljað spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif lögin sem við samþykktum hér í sumar, um flýtimeðferð í dómsmálum sem tengjast gengisbundnum lánum, eru farin að hafa, hvort þau séu farin að hafa tilætluð áhrif og hvort hún telji ekki að ágæt tillaga hv. þm. Ögmundar Jónassonar, um frestun á nauðungarsölum þangað til veraldarmetið hefur verið slegið, verði þá samþykkt hér í þinginu í þverpólitískri samstöðu (Forseti hringir.) til þess að fólk sem nú þegar hefur miklar væntingar geti þá fengið að sjá hver niðurstaðan verður í skuldaniðurfærslu áður en það verður borið út af heimili sínu.