142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu mjög og tel þetta mjög mikilvægt mál sem við þurfum að ræða í þaula í þessum sal. Auðvitað er það alveg ljóst að við munum ekki leggja sæstreng á morgun en við þurfum hins vegar að hefja þá umræðu. Hún er náttúrlega hafin en hefur ekki mikið farið fram hér finnst mér.

Mér finnst mjög mikilvægt að gera skýran greinarmun og hafa það alveg á hreinu að við erum í raun og veru að tala um tvær vörur, eins og fram kom í máli framsögumanns; annars vegar hina stöðugu orku sem við nýtum fyrir heimilin á Íslandi og til atvinnuuppbyggingar á Íslandi, og hins vegar hina stýranlegu orku sem er núna ónýtt og við höfum ekki komið í verð. Vegna aðstæðna á raforkumarkaði t.d. í Bretlandi er ekki aðgangur að svona stýranlegri orku en heimilin þar og atvinnulífið þurfa aðgang að henni. Þar hefur myndast mjög mikil eftirspurn eftir þessari vöru sem við höfum upp á að bjóða.

Spurningin sem við þurfum að takast á við er: Viljum við selja þessa vöru? Viljum við að fyrirtæki sem eru í opinberri eigu skili okkur arði með því að koma þessari vöru í verð eða finnst okkur það á einhvern hátt óþægilegt? Ég held að ef við höfum það algjörlega skýrt að þetta séu tvær vörur þá getum við reynt að koma í veg fyrir að önnur varan hækki í verði við það að við seljum hina vöruna. Við þurfum bara að halda rétt á spilunum til þess að koma í veg fyrir það. Með öðrum orðum; þessi aðgerð, sæstrengur, þarf ekki að leiða til þess að verð á orku til heimila eða fyrirtækja á Íslandi hækki, alls ekki.

Við erum með orkusölustefnu. Hún snýst að mörgu leyti um að selja orkuna mjög ódýrt til mjög stórra og einsleitra fyrirtækja sem skila aftur á móti mjög litlum beinum arði. Eigum við frekar að reyna að stefna að því, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í rauninni ákveðið, að reyna að fá meiri arð (Forseti hringir.) fyrir það sem við þó virkjum? Við þurfum ekki að virkja meira til þess, það er lykilatriði, heldur bara að nýta það sem við erum að gera.