142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[17:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hennar innlegg. Umræðan ber með sér að þetta mál er skammt á veg komið, umræðan er óþroskuð.

Við Íslendingar búum yfir gnótt af endurnýjanlegum orku- og nýtingarmöguleikum en þær auðlindir eru ekki ótæmandi og því ber okkur að vanda vel til virkjunarkosta og okkur ber ekki síður að vanda val okkar til hvers sú orka sem leyst er úr læðingi er nýtt. Orkuauðlindina ber fyrst og fremst að nýta til að skapa fjölbreytt störf í þúsundavís um land allt til að verkfúsar hendur vinni verðmæti til útflutnings á íslensku hráefni og íslensku hugviti. Það er forsenda framfara hér á landi og að það verði eftirsóknarvert að búa hér. Því er ég efins og ég vil taka varlega undir þær hugmyndir um að nýta nýja og kannski stóra virkjunarkosti til þess eins að flytja út orku til aukinna atvinnufyrirtækja erlendis og/eða til heimilisnotkunar þar. Það er reist á sömu rökum og að flytja út útsæði eða grunnhráefni til fullvinnslu erlendis.

Nei, hæstv. forseti. Við skulum frekar kappkosta að nýta takmarkaða virkjunarkosti til uppbyggingar atvinnutækifæra innan lands til að skapa framtíðarstörf í stað þess að flytja þetta út úr landinu. Okkur er einnig nærtækara að tryggja öryggi orkuafhendingar um allt Ísland en að seilast til útlanda með það í huga að afhenda orku þar. Við skulum fara okkur hægt, en ég fagna því ef skýrslan kemur hingað til alvöruumfjöllunar á Alþingi.