143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við það sem ég nefndi í fyrri ræðu minni um þetta mál. Ég ætla aðeins að koma aftur inn á þingsályktunina sem var samþykkt í vor um aukin áhrif Íslands á stefnumótun á vettvangi Evrópusamstarfsins og þá sérstöku fjárveitingu sem sett er í það vegna þess að við stóðum báðir að nefndaráliti um það mál, ég og hæstv. utanríkisráðherra. Þar er fjallað um að mikilvægt sé að nýta þau tækifæri sem þar eru bæði fyrir stjórnsýsluna og fyrir ráðuneytið, sem sagt framkvæmdarvaldið, og einstakar stofnanir en einnig fyrir Alþingi og stjórnmálamenn.

Lögð er á það áhersla í 1. tölulið í nefndaráliti að auka tengsl stjórnmálamanna Íslands og ríkja ESB og það gildi jafnt um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis. Þess vegna vil ég sérstaklega brýna hæstv. ráðherra og ekki síður fjárlaganefnd þegar hún fjallar um þetta mál, vegna þess að hér er í salnum hv. formaður fjárlaganefndar sem var einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu sem ég er að vísa til, að þess verði gætt að Alþingi ekki síður en framkvæmdarvaldið eigi möguleika á að sinna því starfi sem til þess friðar heyrir á grundvelli þingsályktunarinnar. Það var sannarlega ekki meiningin að það yrði bara framkvæmdarvaldið sem ætti að njóta þess eða ætti að fá möguleika til aukins samstarfs. Ég vil því í fyrsta lagi brýna bæði hæstv. ráðherra og hv. fjárlaganefnd í þessu efni.

Í öðru lagi aftur að þróunarsamvinnunni. Nú liggur fyrir í þessari tillögu sem hér er og kemur til umfjöllunar í fjárlaganefnd að miða við 0,26% af vergum þjóðartekjum en ekki 0,28%. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig það birtist í áætluninni; hvort gert sé ráð fyrir að það verði sömu hlutföll innbyrðis á milli einstakra verkefna og eru í gildandi áætlun, þ.e. að sú lækkun, eða eigum við að segja skortur á hækkun, sem verður verði hlutfallsleg milli einstakra liða eða hvort einhverjir einstakir liðir detti út. Mér þætti miður ef svo væri.