143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stundum finnst mér að hæstv. ráðherra tali eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þegar hann var fjármálaráðherra og horfði framan í 230 milljarða kr. halla á ríkissjóði. Við þær aðstæður voru mín viðbrögð þau að ég sagði við hv. þingmann að ég mundi styðja hvert einasta mál sem hann beitti sér fyrir til að minnka hallann og það gerði ég, stundum á hnefanum. Það sama hefði ég sagt við hæstv. ráðherra ef hann væri í þeirri stöðu en hann er ekki í þeirri stöðu. Við erum komin í gegnum kreppuna.

Hæstv. ráðherra verður bara að horfast í augu við að hann hefur af pólitískum ástæðum vísað frá sér ákveðnum tekjumöguleikum og það kemur fram einhvers staðar. Það kemur fram í velferðarkerfinu, það kemur t.d. fram í sjúklingaskattinum.

Þá vil ég taka upp aftur það sem hæstv. ráðherra sagði undir lok ræðu sinnar áðan og fagna því vegna þess að ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hann væri að taka undir með okkur sem höfum sagt að forgangsatriði sé að koma sjúklingaskattinum út. Mér fannst hann vera að segja að vel kæmi til greina að í meðferð þingsins færi það út. Er það réttur skilningur hjá mér, hæstv. fjármálaráðherra og forseti?

Í annan stað þykist ég greina pólitíska stefnu hjá hæstv. ráðherra varðandi fæðingarorlofið. Hæstv. ráðherra segir: Við getum ekki stefnt að tólf mánuðum sökum stöðunnar. En hann sagði: Með því að hækka hinar mánaðarlegu greiðslur er markmið okkar að reyna að auka aftur fjölda feðra, sem fyrstir féllu af vagninum. Það er að minnsta kosti stefna og hún er meira að segja virðingarverð þó að ég kysi að gengið yrði lengra. Þá langar mig til að bæta við annarri spurningu sem er þessi: Má þá gera ráð fyrir því á kjörtímabilinu að hæstv. ráðherra haldi áfram þeirri stefnu að hækka mánaðargreiðslurnar?