143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hljómar nú nokkuð nýtt að fjármálaráðherra komi hér og mæli fyrir frumvarpi sem hann hefur nýlega lagt fram og telji ástæðu til að skoða það í nefndinni sérstaklega hvort ekki eigi að nota annað skattandlag en lagt er til í sjálfu frumvarpinu, þ.e. að byggja á fasteignamatinu en ekki markaðsverðmæti eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, og vekur ákveðnar áhyggjur af því að málið hafi ekki haft nægilegan meðgöngutíma og ekki sé nægilega vandað til undirbúnings þess. En ég átta mig nú satt að segja ekki alveg á því hvernig þetta mál snýr vegna þess að mig minnir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi hér fyrir nokkrum mánuðum flutt frumvarp um að aflétta öllum stimpilgjöldum af viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Kannski misminnir mig um þetta — og ég hélt raunar að það hefði verið kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins að aflétta stimpilgjöldum af öllum viðskiptum með íbúðarhúsnæði.

En mér sýnist að í þessu frumvarpi sé sannarlega verið að halda áfram stimpilgjöldum á íbúðarhúsnæði. Við höfðum auðvitað fallið frá stimpilgjöldum á skilmálabreytingar en mér sýnist til dæmis að fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð muni þurfa að greiða full stimpilgjöld af þeim kaupum sem ég hélt að væri svona kannski forgangshópur að létta þessum miklu gjöldum af frekar en af hlutabréfunum og viðskiptum með atvinnuhúsnæði og annað slíkt. Ég bið bara hæstv. fjármálaráðherra um að leiðrétta mig ef ég man þetta vitlaust, ég hef ekki flett þessu sérstaklega upp. En var þetta ekki svona hugsað? Var Sjálfstæðisflokkurinn ekki að gefa það út hér í þingsölum bara fyrir örfáum mánuðum og í kosningunum sjálfum að þessum gjöldum yrði létt af íbúðarkaupendum og hvers vegna er eftirfylgnin þá svona rýr?

En kannski hef ég bara misskilið þetta í grundvallaratriðum af því að ef þetta er svona þá skil ég nú ekki að hæstv. fjármálaráðherra geti mælt fyrir málinu (Forseti hringir.) kinnroðalaust.