143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, hér birtist skýr forgangsröðun. Hér er gjöldunum létt af hlutabréfaviðskiptum. (Gripið fram í.) En þeim er haldið áfram á þeim sem eru að kaupa sér íbúðarhúsnæði og það er bara í hrópandi mótsögn við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að segja hér og flutti þingmál um bara fyrir örfáum mánuðum síðan, um að létta alfarið stimpilgjöldum af viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Ég get haft samúð með þeim sjónarmiðum ráðherrans að hann sé í þeirri stöðu að hann þurfi að skila frumvarpi þar sem tekjur af einu eru hækkaðar til móts við lækkun á einhverju öðru. En þá hefði ég átt von á að þeim væri létt af þeim sem ættu viðskipti með íbúðarhúsnæði og einkanlega þeim sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Það var auðvitað hópurinn sem menn vísuðu til í réttlætisumræðu hér fyrir kosningar að bæri mjög þung gjöld, ungt fólk sem er að stofna nýtt heimili og fær þessa gríðarlega háu reikninga sem í stimpilgjaldinu felast.

En það er rétt að þetta auðveldar fyrir endurfjármögnun og Seðlabankinn hefur nú í dag gefið út rit sitt um fjármálastöðugleika. Maður hlýtur að spyrja: Hefur það verið metið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á fjárhag Íbúðalánasjóðs? Er talið að það muni leiða til þess að þar verði farið í uppgreiðslu lána hjá viðskiptavinum í stórum stíl þegar gjöld af slíkri endurfjármögnun leggjast af? Hvaða áhrif hefur það á fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs? Mun það baka honum mikið tjón? Hversu mikið tjón er það þá sem skattgreiðendur mundu þurfa að taka á sig á þeim enda málsins?