143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætisábendingar, t.d. varðandi gildistökuna. Það er sjálfsagt að nefndin hugi að því hvort það geti haft einhver neikvæð áhrif að gildistakan sé aðeins fram í tímann en á móti koma sjónarmið um nauðsynlegan aðdraganda og undirbúning fyrir þá sem munu innheimta gjaldið.

Varðandi nafnið á gjaldinu kom það til umræðu í ráðuneytinu hvort ástæða væri til að breyta því en þar sem eðli gjaldsins tekur ekki miklum breytingum þegar þessi skjöl sem eftir standa eiga í hlut þótti ekki ástæða til þess að stíga það skref. En að sjálfsögðu hefur nefndin frjálsar hendur með það eins og öll önnur atriði frumvarpsins.