143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að segja nokkur orð til viðbótar því sem fram kom í andsvörum okkar hæstv. fjármálaráðherra áðan um þetta mál. Ég vil segja fyrst á jákvæðu nótunum að auðvitað geta verið ákveðin tækifæri til að einfalda gjöld og skatta og það virðist sannarlega vera viðleitni til þess hér og sjálfsagt að endurskoða það fyrirkomulag sem verið hefur. Þó verð ég að játa að tillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals um að skipta um nafn kemur hér eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Það eru nú litlar efndir á loforði Sjálfstæðisflokksins um afnám stimpilgjalda á íbúðarhúsnæði ef þeir ætla bara að leggja niður nafnið en leggja á nýtt gjald í staðinn sem skili tekjunum.

Ég orðaði það aðeins áðan að mér þætti kannski umfjöllun hæstv. fjármálaráðherra um andlag skattsins benda til þess að frumvarpið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið. Nú get ég út af fyrir sig sagt að það hafi verið málefnalegt af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að vekja athygli á því að aðrir kostir gætu verið í boði sem gætu verið jafn gildir og það sem lagt væri til í frumvarpinu. Ég ætla ekki að elta ólar við það sérstaklega, en hitt verð ég að segja að sá þáttur málsins sem snýr að Íbúðalánasjóði sýnir ekki undirbúning að lagafrumvarpi um mikilvægan þátt á fjármálamarkaði með þeim hætti sem maður hlýtur að gera kröfu um til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Einkum og sér í lagi eftir þær miklu hrakfarir sem við höfum farið í gegnum á fjármálamarkaði.

Ég verð að segja að ég ætlast til að þegar flutt er lagafrumvarp sem getur haft veruleg áhrif á hegðun lántakenda hjá Íbúðalánasjóði sem er í sérstakri gjörgæslu, gjaldþrota eftir lélegar ákvarðanir hér í þinginu, til meðferðar á daglöngum opnum fundum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess hversu illa hefur verið staðið að margvíslegum ákvörðunum sem snúa að sjóðnum, sé til þess vandað og hæstv. fjármálaráðherra komi ekki í þingið og segi okkur að ekki hafi verið sérstaklega metið hvaða áhrif það muni hafa á lánasafn Íbúðalánasjóðs að fallið verði frá stimpilgjöldum á lánsskjöl.

Þó má öllum vera ljóst að það er einkum tvennt sem gerir að verkum að þeir sem ekki eru undir sérstöku uppgreiðsluálagi í Íbúðalánasjóði hafa ekki leitað endurfjármögnunar. Það er annars vegar þessi þröskuldur og hins vegar hinn frægi nóvemberþröskuldur, þ.e. vonin um að vænta sé einhverra leiðréttinga á lánunum áður en menn ráðast í að flytja þau eitthvert annað þar sem hagstæðari lánskjör eru í boði. Það er algjörlega ljóst að það eru miklu hagstæðari lánskjör í boði alls staðar á fjármálamarkaði en í Íbúðalánasjóði. Allir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, nema þeir sem eru með hið sérstaka uppgreiðsluálag, eiga betri kosta völ í bönkunum, bara á morgun.

Það eru ákveðnir þröskuldar sem koma í veg fyrir að fólk flytji sig. Það er lántökugjaldið, það var stimpilgjaldið og síðan vonin um að þessi lán verði leiðrétt eitthvað á næstu vikum. Það getur vel verið að niðurstaðan úr mati á áhrifunum yrði sú að það væru einvörðungu svo og svo mörg þúsund lántakendur og aðeins svo og svo mikill hluti af lánasafni Íbúðalánasjóðs sem gæti skipt um lánveitanda í kjölfar þessara breytinga, en maður ætlast til þess að matið á þeim áhrifum fari fram. Það er einfaldlega sá umbúnaður sem við þurfum að hafa um ákvarðanir á fjármálamarkaði.

Hitt verð ég síðan að segja aftur að eftir því sem ég öðlast betri innsýn í þennan málatilbúnað sé ég í honum mótsögn. Það var auðvitað stórt loforð á sínum tíma að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að afnema stimpilgjöld á viðskipti með íbúðarhúsnæði og kannski getur tekið tíma að uppfylla það en að það sé uppfyllt með því að stimpilgjöld á viðskipti með íbúðarhúsnæði séu hækkuð um 900 millj. kr. eða nærfellt heilan milljarð í einu af fyrstu málum formanns Sjálfstæðisflokksins í þinginu — ja, það er nú ekki bara að efna ekki kosningaloforðið heldur beinlínis að hækka þær álögur sem flokkurinn hefur lofað að lækka á landsmenn eða afnema með öllu. Það var raunar nýlega hér á þingi, trúlega á vorþinginu, sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði gríðarlega áherslu á að samþykkt yrði strax að fella þessi gjöld niður á íbúðarhúsnæði.

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég hef fullan skilning á þeirri þröngu stöðu sem hæstv. fjármálaráðherra er að vinna úr og að hann verði að gera breytingar á stimpilgjöldum þannig að það tapist ekki tekjur fyrir ríkissjóð. Ég hefði þá vænst þess að gjöldunum væri hallað þannig að það yki ekki skattheimtu af viðskiptum fólks með íbúðarhúsnæði. Því átti ég satt að segja aldrei von á, en ég held að ég skilji það rétt. Ef svo er bið ég hv. efnahags- og viðskiptanefnd sérstaklega að skoða það mál, ég fæ kannski sem varamaður í þeirri ágætu nefnd að koma eitthvað að umfjölluninni. Ef það er svo að frumvarpið leiði til þyngri byrða fyrir kaupendur að fyrstu íbúð en er nú að gildandi lögum held ég að þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að skoða þann þátt sérstaklega.

Það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að stimpilgjöld af lánasamningum vegna fyrstu íbúðakaupa hafi verið undanþegin og það bendir til þess — og nú vil ég ekki fullyrða neitt fyrr en ég hef reiknað þetta nákvæmlega út og skoðað um þetta dæmi — að eftir þessa breytingu sé umtalsvert hærra stimpilgjald á þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð en er að gildandi lögum. Þá spyr maður sig bara út í hvaða móa Sjálfstæðisflokkurinn sé eiginlega kominn með efndir á kosningaloforðum sínum, ef það er ekki bara verið að auka gjaldtöku um 900 millj. kr. á viðskiptum með íbúðarhúsnæði sem þeir lofuðu að afnema heldur að auka sérstaklega álögurnar á þá sem kaupa sína fyrstu eign.

Þá er orðið slíkt bil á milli orða og efnda að ég held að þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd þurfi sérstaklega að kanna hvort ekki megi gera lagfæringar á þessu frumvarpi og nýta þó um leið það jákvæða sem í því kann að vera og einkum það sem lítur að einföldun á þessari skattheimtu.