143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt það að geta komið í ræðustól Alþingis og svarað fyrir það atriði sem hér er talað um. Vinstri grænir eru þyrstir í að komast í þau gögn sem vinnuhópurinn, hagræðingarhópurinn, hefur haft til umfjöllunar og hefur nú skilað af sér til hæstv. ríkisstjórnar.

Það er mjög auðvelt að svara því að hagræðingarhópurinn var á engan hátt að finna upp hjólið. Hér í samfélaginu og á internetinu liggja fyrir ófáar skýrslurnar sem einmitt hafa fjallað um þessi mál í gegnum tíðina, þ.e. hagræðingu í ríkisrekstri, sameiningu stofnana og annað sem getur gagnast í þeirri vinnu sem hagræðingarhópurinn hefur farið í. Ég minni á að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var dugleg að skipa hópa og nefndir til að fara yfir þessi mál í sinni tíð og vísa ég á netið í því efni.

Hagræðingarhópurinn fór ekki í þá vinnu upp á nýtt að finna upp hjólið og gera nýjar skýrslur og halda langa fundi til að kjafta um það hvar mætti spara og hvar mætti draga saman. Það kemur fram í fylgiriti fjárlagafrumvarpsins að það er stefna ríkisstjórnarinnar að sameina stofnanir, einar 40–50 stofnanir, þannig að það er ekkert nýtt undir sólinni í því.

Úr því að spurningin gengur út á það að forsætisráðuneytið hafi neitað þingmönnum Vinstri grænna um að sjá þau gögn sem liggja fyrir er það augljóslega gert á grunni upplýsingalaga sem Samfylkingin og Vinstri grænir höfðu forgöngu um að breyta þrisvar á síðasta þingi sem endaði í nýrri lagasetningu. Ég tel að þetta atriði, að forsætisráðuneytið geti ekki birt þessar upplýsingar, sé að finna í margbreyttum upplýsingalögum (Forseti hringir.) sem síðasta ríkisstjórn breytti svo ört.