143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sá er munurinn á að gagnvart framtíðarviðskiptum við alþýðulýðveldið höfum við alltaf EES-samninginn í bakhöndinni. Hann gildir eftir sem áður. Við höfum þá ávinninga og ívilnanir sem honum fylgja. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hef ég skilið mál hv. þingmanns þannig að hann er að setja upp valkosti, þ.e. hann vill annaðhvort þetta nýja Norðurhafabandalag eða breyttan EES-samninginn. Þannig hef ég skilið hv. þingmann. Mér finnst það vera hugmyndafræði. Hann rökstyður hana. Ég tel einfaldlega að það sé ekki hagsmunum Íslands fyrir bestu að taka annan hvorn þessara tveggja valkosta. Það er mín skoðun gagnvart sjónarmiðum hv. þingmanns.

Ég hef, eins og hann veit af fyrri umræðum okkar hér, aðra skoðun og aðra nálgun að því hvernig við förum með fullveldið en hann. Hann talar um að fórna fullveldinu. Ég tala hins vegar um að deila fullveldinu. Það er þannig að ríki í dag deila fullveldinu að hluta til vegna þess að með því eru þau að styrkja sig og þar með líka að styrkja fullveldi sitt.

Hv. þingmaður talar um að gefa eftir fullveldi út af efnahagslegum markmiðum. Það er meira en efnahagslegu markmiðin sem fyrir mér vaka. Það eru líka öryggissjónarmið sem koma auðvitað aldrei inn í þessa umræðu hér á landi af því menn eru alltaf að hugsa um budduna. Þau skipta líka máli í mínum augum.