143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sæstrengur til Bretlands.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í vikunni bárust fréttir af því að forseti lýðveldisins væri að fara að kynna hugmyndir um sæstreng til Bretlands á fundum í Bretlandi fyrir breskum fjárfestum. Eins og kunnugt er hefur verið skilað til hæstv. iðnaðarráðherra skýrslu um möguleika á lagningu sæstrengs héðan til Bretlands og þar er ýmsum spurningum varpað fram sem á eftir að svara. Það liggur fyrir að til að hægt sé að leggja hér sæstreng upp á 700–900 megavött þarf mikla orku, líklega fleiri virkjanir þannig að það skortir enn kortlagningu á því nákvæmlega. Það þarf líka að gera athuganir á því hversu stöðugur þessi markaður er og hversu hátt verð fengist fyrir orkuna í slíkum sæstreng.

Það vöknuðu hjá mér spurningar þegar ég las þessar fregnir sem hafðar voru eftir breska blaðinu The Guardian. Mig langaði að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort forseti lýðveldisins væri að reka þessi erindi í umboði ríkisstjórnar eða hvort þetta væri í tengslum við stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefði markað í málinu og hvort ákvarðanir lægju fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í ljósi þess að í skýrslunni sem við þekkjum hér á þingi er lögð til áframhaldandi vinna þar sem á eftir að svara ýmsum spurningum, eins og ég nefndi áðan. Er búið að taka einhverjar ákvarðanir eða leggja í einhverja vinnu til að svara þessum spurningum? Er forsetinn í samráði við ríkisstjórnina að leita eftir stuðningi og áhuga hjá breskum fjárfestum eða er þetta hreinlega hluti af erindum sem hann er að reka fyrir hæstv. ríkisstjórn í Bretlandi? Það liggur auðvitað fyrir að það á eftir að fara fram mikil vinna. Ég legg áherslu á það og inni hæstv. ráðherra líka eftir því hvort ekki sé ætlunin að halda áfram því samráði sem var um þessi mál á síðasta kjörtímabili í áframhaldandi vinnu.