143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sameignarfélög og fyrirtækjaskrá.

132. mál
[11:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, og lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, á þingskjali 147, 132. mál. Frumvarpið er samið í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og sýslumannsins í Reykjavík fyrir hönd Sýslumannafélags Íslands.

Í dag hafa sýslumenn, hver í sínu umdæmi, með höndum skráningu firmu eins manns, sameignarfélaga og samlagsfélaga og er tilgangur frumvarpsins sá að flytja þessi verkefni frá sýslumannsembættunum til fyrirtækjaskrár sem starfrækt er af ríkisskattstjóra. Fyrirtækjaskrá hefur með höndum skráningu annarra félaga. Það er sameiginlegt mat aðila að mikið hagræði sé fólgið í því að skráning alls atvinnurekstrar sé á einni hendi.

Umrædd breyting er til þess fallin að einfalda framkvæmd og samræma reglur um skráningu tiltekinna félaga sem og að bæta þjónustu opinberra aðila við atvinnulífið. Þannig yrði hægt að nýta tölvukerfi fyrirtækjaskrár til að halda utan um skráningu félaga og breytingar á þeim ásamt því að einfalda almennt skráningu mismunandi félagaforma. Tölvukerfi fyrirtækjaskrár er mun fullkomnara en tölvukerfi sýslumannsembættanna þar sem á einfaldan og öruggan hátt er hægt að kalla fram allar upplýsingar um félög og skrá, útbúa vottorð og veita aðgang að skráðum gögnum. Nú þurfa þeir sem skrá félög í firmaskrá fyrst að óska eftir skráningu í firmaskrá hjá sýslumönnum og sækja í framhaldinu um kennitölu til fyrirtækjaskrár sem gefur út kennitölur til annarra en einstaklinga.

Sú breyting sem hér er lögð til hefði í för með sér mikil þægindi og einföldun fyrir þessa aðila en mikið hagræði er í því fólgið að öll félög, óháð félagaformi, séu skráð á einum stað. Breytingin hefur óhjákvæmilega í för með sér kostnað hjá fyrirtækjaskrá en að sama skapi munu sparast fjármunir hjá sýslumannsembættunum. Það er mat aðila að bæta þurfi við einum sérfræðingi til starfa hjá fyrirtækjaskrá til að sinna þeim verkefnum sem lagt er til að flutt verði til stofnunarinnar. Það er sömuleiðis mat aðila að kostnaður hljótist einnig af skráningu, flokkun og skönnun eldri gagna sem færast frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár. Í því sambandi er vert að hafa í huga að flestar skráningar í firmaskrá voru hjá sýslumannsembættunum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði en hlutfall skráninga hjá þessum þremur embættum voru um 75% á árunum 2010–2012, 76% á árinu 2010, 78% á árinu 2011 og 75% á árinu 2012.

Frumvarpið stuðlar að einfaldari umgjörð um skráningu tiltekinna félagaforma fyrir viðskiptalífið auk hagræðis við að halda aðeins úti einu skráningarkerfi fyrir öll félagaform. Breytingin ætti ekki að hafa í för með sér lakari þjónustu fyrir landsbyggðina þar sem ríkisskattstjóri sem starfrækir fyrirtækjaskrá er með starfsstöðvar víðs vegar um landið. Fyrirtækjaskrá hefur einnig lagt mikið upp úr því að hægt sé að skila gögnum til skrárinnar rafrænt. Lagt er til að breytingin taki gildi frá og með næstu áramótum, 1. janúar 2014.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem stuðli að einfaldari framkvæmd og samræmingu við skráningu tiltekinna félaga, auk þess að bæta þjónustu opinberra aðila við atvinnulífið. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.