143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að bjóða okkur þingmönnum Pírata að taka þátt og vera meðflutningsmenn á þessu frumvarpi.

Ég vísa í grein 6.3 í grunnstefnu okkar pírata: „Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum …“ Það er það sem er í boði hérna, að minnka samþjöppun valds á fárra manna hendur. Það er í rauninni ekki hægt að taka minna skref í þá átt að ráðherrar sem fara með framkvæmdarvaldið hafi ekki jafnframt löggjafarvald. Þarna er ráðherrum boðið upp á að víkja, ekki varanlega heldur tímabundið, til hliðar úr þingsæti sínu meðan þeir gegna embætti ráðherra. Það er boðið upp á það — þeim er ekki einu sinni skylt að gera það, þeim er bara boðið upp á það. Þetta skapar þann möguleika að ráðherrar geti vikið og sitji ekki í tveim stólum samtímis.

Það sem er kannski áhugaverðast við þetta frumvarp er að það hefur þurft að flytja það fimm sinnum sem sýnir glögglega að menn eru ekki tilbúnir að sleppa neinu valdi; þegar þeir komast í stól framkvæmdarvaldsins ætla þeir að sitja sem fastast líka í stóli löggjafarvaldsins.

Eins og ég segi, það er ekki hægt að taka minna skref. Það verður áhugavert að hlusta á rök og réttlætingar hv. þm. Birgis Ármannssonar sem mun tala á eftir mér. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig hann réttlætir það að ekki skuli fara þessa leið.