143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst það að þó að ég hafi bent á að það færi betur á því að gera breytingu af þessu tagi með stjórnarskrárbreytingu er ekki þar með sagt að ég sé sammála henni. Ég bendi bara á að það væri kannski eðlilegri leið til þess að nálgast breytingu af þessu tagi, en látum það nú liggja milli hluta.

Það sem hv. þingmaður nefnir er auðvitað svolítið annað mál, þ.e. fjárframlögin. Ef ríkið á að veita fjárframlög til flokka á annað borð, sem er alltaf umhugsunarefni, held ég að það sé engin önnur leið til þess að gera það með sanngjörnum hætti en að miða við kjörfylgi, ég held að það sé engin önnur leið til þess að hafa einhverja sanngirni í því — eins og þingmannafjöldi á auðvitað að vera í samræmi við kjörfylgi.

Það sem ég gagnrýni í þessu er að með þeirri breytingu sem hér er lögð til er verið að ýkja stöðuna, þ.e. að það er verið að gefa stjórnarflokkunum meira vald eða meiri áhrif, meiri slagkraft á þinginu en kjörfylgi segir til um, það er það sem ég gagnrýni. Það er verið að víkja frá þeirri viðmiðun að það sé kjörfylgið sem ráði því nokkurn veginn hvernig hlutföllin eru hérna innan húss, það er verið að ýkja það. Það er það sem mér finnst vera athugavert við þetta.