143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég er nokkuð hugsi yfir umræðunum sem urðu hérna í gær um skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um lagningu raforkustrengs og tillögu ráðherrans um að leggja það fyrir þingið hver eigi að vera næstu skref.

Við erum öll sammála um að fara varlega, um að vanda okkur og ana ekki að neinu í þessum efnum. Við erum líka sammála um að mörg atriði þarf að skoða nánar áður en næstu skref eru stigin þótt ljóst sé að sumir séu lengra komnir í að gera upp hug sinn en aðrir í þessum sal.

Ráðgjafarhópur var skipaður. Hann var bæði þverpólitískur og þverfaglegur og skilaði tillögu um næstu skref. Þau eru í sjö liðum. Væri farið að þeim tillögum hefði þingið fast land undir fótum til að ræða þessi mál, sem það hefur ekki þegar skýrslunni er, ef ég má orða það svo, hent svona inn í þingið án þess að svör liggi fyrir við þessum spurningum.

Hæstv. ráðherra nefndi að umfjöllun þingsins gæti leitt til einhvers af þrennu, með leyfi forseta:

1. Fela starfshópi eða starfshópum að kanna ítarlegar einhverja afmarkaða þætti framkvæmdarinnar.

2. Stjórnvöld hefji formlegar könnunarviðræður við mögulega samningsaðila.

3. Hægja á frekari könnun verkefnisins.

Virðulegi forseti. Það hefur löngum verið talað um að mál séu svæfð í nefnd. Þá er málum vísað til nefnda sem ljúka þeim aldrei. Ég er kannski óþarflega tortryggin en mér finnst einhvern veginn að hér sé verið að vísa málinu til þingsins til að svæfa það og veita ráðherra, sem ég hélt að væri allt annað en feimin við að ákveða eða framkvæma, skjól frá því að taka ákvörðun um næstu skref sem þverpólitískur, þverfaglegur hópur hefur lagt til og velja jafnvel síðustu leiðina sem hún talar um, að hægja á verkefninu vegna þess að þingið skili ekki áliti.