143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í dag til að taka undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem hvatti í ræðustól í gær þingmenn til að sýna kjark og þor við fjárlagagerðina. Það er ein af skyldum okkar sem í stjórnmálum starfa að gera okkur grein fyrir því hvaða þætti þarf að efla í samfélaginu og hvar draga úr, hvaða þætti við þurfum að verja framar öðrum.

Við í Bjartri framtíð sendum opið bréf til hagræðingarhópsins og ríkisstjórnar þar sem við hvöttum til róttækni í fyrirhugaðri hagræðingu þar sem margir sparnaðar- og hagræðingarmöguleikar eru fyrir hendi. Við vöruðum jafnframt við því að fara í flatan niðurskurð þar sem gefin yrði út hagræðingarkrafa upp á viss prósent. Það gerðum við ekki síst í ljósi þess að margar stofnanir í samfélaginu eru einfaldlega komnar fram á bjargbrúnina og þar nægir að nefna Landspítalann og heilbrigðiskerfið.

Það er alveg rétt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, við verðum að forgangsraða og þora að gera breytingar. Við gætum til dæmis byrjað á því að gera fjárlagagerðina gagnsærri og skynsamlegri þar sem horft yrði til lengri tíma en eins árs í senn og fólk vissi betur að hverju það gengi.

Ég vil koma með þá tillögu að ekki verði meira skorið niður til heilbrigðismála og hvet alla þingmenn, ekki síst hv. stjórnarþingmann Vilhjálm Árnason, til að beita sér fyrir því að fyrirhuguð tekjuskattslækkun sem áætlað er að skili ríkissjóði annars rúmum 5 milljörðum í tekjur verði dregin til baka og þeir fjármunir lagðir í rekstur Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana sem eiga undir högg að sækja. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Stjórnmál snúast ekki síst um traust, samskipti og samráð sem á að miða að því að efla hag og hamingju þjóðarinnar. Því skora ég einnig á og hvet alla þingmenn til að stuðla að því að blásið verði til stóraukins samráðs milli ríkisstjórnarinnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífs, launþega, fjármálageirans og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið og umbætur á ýmsum sviðum. Það mundi minnka óvissu sem alls staðar ríkir og gefa öllum von.

Oft hefur verið þörf á sátt og samstöðu meðal þjóðarinnar. Nú er nauðsyn.