143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

framganga lögreglunnar gegn mótmælendum í Gálgahrauni.

[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég held að við sem í þessum sal erum hljótum að geta verið sammála um að við viljum ekki búa í ríki þar sem innanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar beita sér gagnvart lögreglu. Aðkoma ráðuneytis eða ráðherra í þessu máli er því auðvitað ekki til staðar. Þetta er ákvörðun sem er tekin hjá lögreglu, lögreglan er einungis að sinna sínu hlutverki á þessu svæði eins og hún hefur sjálf útskýrt og forsvarsmenn lögreglunnar gert í samstarfi við Vegagerðina til að tryggja að löglega teknar ákvarðanir nái fram að ganga. Ráðherra hefur ekki afskipti af einstaka lögregluframkvæmdum.

Ég hef heyrt umræðuna um að lögreglan hafi beitt sér of harkalega þarna og menn hafa þá sérstaklega vitnað til þess að þarna hafa verið margir lögreglumenn. Ástæðan fyrir því er sú, eins og lögreglan hefur útskýrt opinberlega, að menn vilja fara vandlega í svona aðgerðir og tryggja að ekki verði harka í kringum þær. Þess vegna eru lögreglumennirnir fleiri en ella en hefur ekkert að gera með vigt eða vægi málsins að öðru leyti en því. Þetta eru ekki verkefni sem koma inn á borð ráðherra heldur er þetta ákvörðun sem er tekin annars staðar. Ég vona einlæglega að það verði aldrei til umræðu á Alþingi að innanríkisráðherra blandi sér sérstaklega í einstakar lögregluaðgerðir.