143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

[15:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í bígerð var að stækka friðlandið í Þjórsárverum og baráttan fyrir því hefur staðið eins og kunnugt er í um 40 ár. Innan hins stækkaða friðlands var virkjunarhugmyndin Norðlingaölduveita í samræmi við samþykkta rammaáætlun í janúar sem leið en þá var hún flokkuð í verndarflokk.

Hæstv. umhverfisráðherra svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir skemmstu. Fram kemur í svari ráðherrans að sá virkjunarkostur sé í friðlýsingarferli í samræmi við lögin. Í svarinu segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun hefur unnið friðlýsingarskilmála fyrir stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun og taka þau áform til lögsögu átta sveitarfélaga þar sem fram kom tillaga um að friðlýsingin tæki m.a. yfir allan Hofsjökul. Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu. Unnið er að endanlegri skilgreiningu svæðisins til samræmis við niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og vonir bundnar við að niðurstaða fáist í það sem fyrst.“

Nú ber svo við, herra forseti, að ráðherrann hefur talað öðruvísi við fjölmiðla. Það er ekki samræmi í því sem hann hefur sagt við fjölmiðla og því sem hann segir í því skriflega svari sem dreift hefur verið á Alþingi. Það tel ég vera alvarlegt og í raun óskiljanlegt. Hæstv. ráðherra segir í fjölmiðlum að til standi að stækka friðlandið en það útiloki ekki Norðlingaölduveitu. Þar með er verið að minnka tillögu Umhverfisstofnunar og tillöguna í samþykktri náttúruverndaráætlun. Ef Norðlingaölduveita er ekki hluti af stækkuðu friðlandi Þjórsárvera er verið að ganga á svig við rammaáætlun og náttúruverndaráætlun og það stenst að sjálfsögðu ekki.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur umhverfisráðherra að það geti farið saman að svara þinginu einu en fjölmiðlum öðru? Og hafa auk þess uppi áform um að friðlýsa ekki virkjunarkostinn í samræmi við rammaáætlun og gildandi lög eins og hann hefur gefið til kynna í skriflegu svari til Alþingis.