143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Hann spyr: Af hverju þetta ákvæði? Væntanlega er hann að tala um frumvarpið í heild sinni, sem sagt af hverju verið sé að hlutdeildarsetja rækjuna að nýju.

Sóknin hefur snaraukist eins og kom fram í framsögu minni og kemur einnig fram í greinargerð frumvarpsins. Ef menn fletta upp á bls. 2 í frumvarpinu sjá þeir fiskveiðiár og fjölda fiskiskipa og að fjöldinn hefur snarlega aukist og það þrátt fyrir að menn hafi á ýmsum tímum talið að veiðarnar væru ekki arðsamar. Það gerist einfaldlega í því kerfi þegar menn hvetja til ólympískra veiða, menn búa sér til þá hugsanlegu stöðu að þeir geti öðlast einhverja aflareynslu með því. Þá verður til þessi sóun. Sóknin er of þung, menn hafa þurft að stöðva veiðarnar, það magn sem Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt að veitt yrði og ráðherrar orðið við hefur klárast. Ekki er veitt á þeim tíma sem rækjan er dýrmætust þannig að þetta kemur sér illa fyrir samfélagið. Þetta kemur sér illa fyrir atvinnugreinina. Við nýtum þetta ekki nógu hagkvæmt þjóðhagslega. Þess vegna er hoggið á þennan hnút með þessu frumvarpi og þeim rökstuðningi sem fyrir liggur um af hverju þessi leið er farin.