143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeim tímum sem verðmætasköpun var sem minnst í þessari grein var í sjálfu sér ekki vandamál að fá aflaheimildir fyrir þá sem vildu stunda rækjuveiðar. Markaðurinn var einfaldlega þannig að það var ekki arðbært og það er ekkert óeðlilegt að fyrirtæki sem hefur skapað sér rétt fari ekki að veiða við þær aðstæður að það haldi rétti sínum og fari svo að veiða þegar markaðsaðstæður breytast.

Hvert er markmiðið með fiskveiðistjórnarkerfi hjá okkur? Þau markmið voru meitluð í stein með setningu kvótakerfisins 1984 og framsalinu sem kom 1991. Og bíddu, hvert var markmiðið með þessu? Markmiðið var auðvitað að hagræða í greininni. Markmiðið var að fá einhverja stýringu á það sem verið hafði ofsókn. Hvernig tókst okkur svo til? Okkur tókst þannig til, á ekkert svo ýkja mörgum árum, að skapa hér þær aðstæður að við rekum einhvern arðsamasta sjávarútveg í heimi. Það leiðir til þess að offjárfestingar verða ekki til staðar sem skaða þessa hámarksarðsemi greinarinnar. Þetta er auðvitað eitt af því sem við erum að stýra.

Ég var ekkert að tala hér niður til þeirra sem fjárfestu, en við sköpuðum þessar aðstæður. Fjárfestingin hefði ekki þurft að verða til til þess að við hefðum getað klárað þessar veiðar. En mönnum er auðvitað att út í þetta. Við getum farið út í annað kerfi sem er strandveiðikerfið, sú offjárfesting sem varð þar, hvernig verð á bátum þrefaldaðist eða fjórfaldaðist á örskömmum tíma, nánast yfir nótt. (Forseti hringir.) Hvernig hefur afkoman verið í því kerfi? Almennt séð ekkert sérstök, (Forseti hringir.) alls ekki, og ekki staðið undir þessari fjárfestingu.