143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég kem aðallega hingað til að taka undir hugleiðingar og orð hv. þm. Freyju Haraldsdóttur um lögregluna. Við erum sammála um það, þar á meðal sammála innanríkisráðherra, að auðvitað á ráðherra ekki að beita sér í einstökum lögreglumálum.

Akkúrat það sem fram kom hjá hv. þm. Freyju Haraldsdóttur hefur verið í kollinum á mér síðan við ræddum þetta hér, bæði um aðgerðir lögreglunnar í Gálgahrauni og aðgerðir lögreglunnar gagnvart hælisleitendum. Það hlýtur að vera hlutverk þingsins að velta fyrir sér svona almennt hversu hart lögreglan ætlar að ganga fram í því að sinna verkefnum sínum. Ég held að það hljóti líka að vera í verkahring innanríkisráðherra að hafa einhverjar skoðanir á því, sannarlega ekki beita sér í einstökum málum en hafa skoðanir á því af hve mikilli hörku við viljum að lögreglan beiti sér almennt og yfirleitt.

Ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir að taka þetta upp og vekja mig aftur til umhugsunar um þetta. Ég held að við verðum að velta þessu alvarlega fyrir okkur. Það er ekki inngrip í einstaka atburði að við veltum fyrir okkur hversu harðskeytta lögreglu við viljum hafa í landinu.