143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

hækkun skráningargjalda í háskólum.

[10:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur áður verið spurður um hækkun skráningargjalda á nemendur í opinberum háskólum í þessum sal en samkvæmt fjárlagafrumvarpi á að hækka þau úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Nýlega, þ.e. fyrir árið 2012, voru þau hækkuð úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. og höfðu þá verið óbreytt frá árinu 2005 og því voru nokkuð skýrar verðlagsforsendur á bak við þá hækkun. Sú hækkun sem þá varð skilaði sér óskipt til skólanna.

Þegar hæstv. ráðherra var spurður út í þessa hækkun við 1. umr. fjárlaga kom fram í máli hans að skólarnir hefðu óskað eftir hækkuninni og fært rök fyrir auknum kostnaði sem skráningargjöldunum er ætlað að mæta. Þegar nánar er rýnt í fjárlagafrumvarpið kemur hins vegar fram að þessi rök falla um sjálf sig því að hækkunin skilar sér hreint ekki til skólanna sjálfra. Sem dæmi má nefna Háskóla Íslands þar sem flestir stunda nám. Þar ætti hækkunin að skila um það bil 180 milljónum til skólans en samkvæmt frumvarpinu eykst útgjaldaheimild háskólans ekki um þá fjárhæð heldur einungis um 39,2 milljónir. Afganginn tekur ríkissjóður. Hér er því ekki um neitt annað að ræða en dulda skattlagningu á námsmenn, virðulegur forseti. Ótrúlegt að sjá slíkt frá ríkisstjórn sem boðar almennt skattalækkanir nema hún sé fyrst og fremst, eins og dæmin kannski sanna, að hugsa um stóru aðilana í þeim efnum. Hún fer síðan fjallabaksleið til að skattleggja námsmenn sem svo sannarlega teljast ekki til tekjuhæstu eða burðugustu hópanna í samfélaginu.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta verði með einhverjum hætti leiðrétt við vinnslu fjárlaga eða hvort hann álíti að þetta sé eðlileg ráðstöfun eins og hann leggur málið upp og hafði áður svarað hér við 1. umr. um fjárlögin.