143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

hækkun skráningargjalda í háskólum.

[10:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt hægt að fara í alls konar bókhaldsleiki með mál af þessum toga. Kjarni málsins er engu að síður sá að það kom fram í svari ráðherra við 1. umr. að háskólarnir hefðu farið fram á þessa hækkun og hann hefði talið rökstuðninginn vera góðan og gildan og eðlilegt að fallast á hann. Rökstuðningur háskólanna var að þeir þyrftu þessa hækkun til sín. Þess vegna, ef rökstuðningurinn er að mati ráðherrans eðlilegur, skrifar hann upp á að háskólarnir þurfi þetta fjármagn til sín en það sem hann er í raun að gera, burt séð frá öllum bókhaldsbrellum, er að láta stúdentana borga fyrir niðurskurðinn. Það er það sem stendur eftir.

Námsmannafélögin hafa vakið athygli á þessu máli, herra forseti, gagnvart efnahags- og viðskiptanefnd sem er með einhvern hluta fjárlagadæmisins til umfjöllunar. Og ég ætla rétt að vona að sú nefnd fari þá rækilega í gegnum þessar bókhaldsbrellur sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er að reyna að útskýra fyrir okkur hér í dag í þessu sambandi.