143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Takk fyrir góða umræðu. Auðvitað getur maður ekki annað en brosað þegar kemur jákvæð skýrsla um liðið kjörtímabil og stjórnarliðarnir mæta henni með því að segja að ekki séu nógu góðar upplýsingar í skýrslunni sem við fáum til umfjöllunar í þinginu. Auðvitað eigum við bara öll að gleðjast yfir því að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar voru fyrri sex mánuðirnir á árinu eins og þeir eiga að vera. Tekjurnar voru yfir áætlun og gjöldin voru langt undir áætlun. Við eigum líka að gleðjast yfir því að það hefur náðst mikill árangur í ríkisfjármálum og að við sjáum fram á að næstu missirum gæti hér orðið hallalaus ríkisrekstur. Áhyggjuefnið eru aðgerðir og aðgerðaleysi sitjandi ríkisstjórnar sem bitnar illilega á ríkissjóði á seinni sex mánuðum ársins.

Það er fjölmargt sem ég fékk ekki nefnt sem er jákvætt í sex mánaða uppgjörinu. Eitt er það að reksturinn tekur til sín umtalsvert minna af handbæru fé. Annað er það að langtímaskuldir lækka um 24,5 milljarða, skammtímaskuldir um 14,9.

Ég veit að hæstv. ráðherra á mörgum spurningum eftir ósvarað úr fyrri ræðu minni og ég ætla ekki að hlaða á það nema bara einni spurningu. Ég er sannfærður um að það sem skapar ríkissjóði mesta erfiðleika núna er óvissan sem sköpuð hefur verið um efnahagsmál og stöðu ríkisfjármála í boðuðum skuldaaðgerðum sem enginn veit neitt um. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hér og nú hvort það komi til greina af hans hálfu að þær aðgerðir leiði til þess að hækka nettóskuldir ríkissjóðs. Ég tel að það sé grundvallaratriði fyrir traust og trúnað á ríkissjóði að menn fái eytt þeirri óvissu hvort komi til greina að skuldsetja ríkissjóð gríðarlega (Forseti hringir.) í nettóskuldum eða brúttóskuldum vegna aðgerða (Forseti hringir.) sem eru fram undan.