143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[18:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, sem er þingskjal 196, 164. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við Byggðastofnun.

Í því eru lagðar til þrjár efnislegar breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Í fyrsta lagi er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur til ársloka ársins 2020. Í annan stað er lagt til að sveitarfélagið Tjörneshreppur falli undir styrkhæf svæði í flokki 2 þar sem heimilt er að endurgreiða 20% flutningskostnaðar. Í þriðja lagi er lagt til að orðskýringu á hugtakinu „byggðakort“ verði breytt.

Ástæður þess að frumvarp þetta er lagt hér fram eru eftirfarandi: Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, renna út í árslok 2013 en ríkur vilji er til að halda áfram þessu fyrirkomulagi. Almenn ánægja hefur verið með svæðisbundna flutningsjöfnun og er hún talin mikilvægur þáttur í að jafna aðstöðumun fyrirtækja sem starfa langt frá útflutningshöfnum eða meginmarkaðssvæðum sínum. Þar sem lögin hafa tilvísun í byggðakort ESA þykir eðlilegt að gildistími laganna miðist við gildistíma byggðakortsins, en hann er frá 2014–2020.

Í öðru lagi virðast hafa átt sér stað mistök þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma, því Tjörneshreppur er ekki talinn upp meðal styrkhæfra svæða fyrir 20% endurgreiðslu flutningskostnaðar. Tjörneshreppur er þó umlukinn sveitarfélaginu Norðurþingi sem er styrkhæft og því ljóst að vilji löggjafans hefur ekki staðið til að undanskilja sveitarfélagið. Lagt er til að þetta verði leiðrétt hér með.

Í þriðja lagi er talin ástæða til að orðskýring á hugtakinu „byggðakort“ sé ekki bundin við tiltekið málsskjal ESA heldur sé með almennum hætti vísað til byggðakorta ESA. Þetta er meðal annars gert þar sem málsskjöl er tilgreina byggðakortin fyrir næsta tímabil liggja ekki fyrir fyrr en á næsta ári.

Til upplýsingar má svo bæta því við að fram til þessa hefur þessu verkefni verið úthlutað fjármunum á fjárlögum ári áður en útgreiðslur eiga sér stað. Ákveðið hefur verið að hverfa frá því vinnulagi og því er ekki úthlutað fjármagni til verkefnisins á næsta ári því að fjárheimildir ársins 2013 verða nýttar árið 2014. Þess í stað þarf að ætla verkefninu fjármagn á fjárlögum á næsta ári.

Þess misskilnings gætti hér við umræður um stefnuræðu fyrr í haust að núverandi ríkisstjórn hygðist hætta með þessa flutningsjöfnun eða ekki fjármagna hana. Það var reynt að útskýra það og kemur sú útskýring reyndar fram í fjárlagafrumvarpinu að verið sé að breyta fjármögnun á því og alls ekki að hætta við það vegna þess að þetta sé hið ágætasta verkefni sem gengið hafi vel.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.