143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[19:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir og þakka ábendingar og hvatningu hv. þingmanns í þá veru að við reynum að styrkja innviði kerfisins hvað það varðar að allir íbúar landsins, fyrirtæki og einstaklingar, sitji við sama borð og geti fengið að njóta sömu opinberrar þjónustu, svo að dæmi séu tekin. Eitt af því sem menn leggja mikið upp úr er að flutningur á vörum og jafnvel þjónustu verði sambærilegri og sanngjarnari en nú er.

Ég ætla að bæta aðeins við varðandi sjóflutningana, að það er þó þannig að ef sjóflutningar eru ódýrari en landflutningar í núverandi kerfi þá koma styrkir til greina, sem sagt þeir verða styrkhæfir samkvæmt kerfinu. Það sem gerist hins vegar gjarnan við sjóflutninga, annars vegar strandsiglingarnar og eins ef menn fara að flytja útflutning frá útflutningshöfn, þá fellur styrkurinn náttúrlega þar með niður. Þetta er því býsna flókið kerfi.

Það kerfi sem hér er verið að framlengja hefur gefist vel. Mat á umsóknum og úthlutanir hafa gengið mjög vel hjá Byggðastofnun. Þess vegna er ánægjulegt að geta haldið áfram. Ég er sammála hv. þingmanni að mikilvægt er að við höldum áfram á þessari braut og jöfnum kjör allra landsmanna betur en við höfum haft ráð til fram til þessa.