143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

sameiningar heilbrigðisstofnana.

[15:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að bera upp fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er að hugsa um sameiningar heilbrigðisstofnana og hvort einhver stefnubreyting hafi orðið hjá hæstv. ráðherra varðandi þær. Nú veit ég að hæstv. ráðherra hefur átt fund með ýmsum og í mínu kjördæmi veit ég að það voru miklar hugmyndir uppi um að sameina heilbrigðisstofnunina við félagsþjónustu sveitarfélagsins í Vesturbyggð. Heimamenn höfðu áhuga á því að vera tilraunasveitarfélag í því efni og veit ég að hæstv. ráðherra hefur fundað með þeim. Einnig veit ég að hæstv. ráðherra hefur fundað með flokksmönnum sínum á Sauðárkróki þar sem mótmælt hefur verið niðurskurði og sameiningu heilbrigðisstofnana.

Ég hef líka áhyggjur af bakdeild sjúkrahússins í Stykkishólmi og svona er þetta vítt og breitt um landið. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvort rök heimamanna hafi haft áhrif á hann varðandi þessar sameiningar og hvaða samlegðaráhrif hann sjái til dæmis á Vestfjörðum við sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Telur hann að það þjóni þessum dreifðu byggðum að fara út í svo víðtæka sameiningu eins og þar um ræðir? Er ekki skynsamlegt að hlusta á rökstuddar tillögur heimamanna og áhuga þeirra á að brjóta upp það sem fyrir er og nýta samlegðaráhrif í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu?