143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi þær viðmiðunarreglur eða verklagsreglur sem við höfum tekið saman í fjármálaráðuneytinu og kynnt í ríkisstjórn þá er sjálfsagt að fara yfir þær með fjárlaganefnd á næstunni.

Það er rétt sem hér kemur fram að víða er vandi, hjá framhaldsskólum og annars staðar, og sums staðar uppsöfnuð staða gagnvart ríkissjóði mjög slæm eins og á við hjá Vegagerðinni gagnvart mörkuðu tekjunum. Það er mjög sérstakt tilfelli, enda held ég að hallinn í því dæmi sé að nálgast 20 milljarða, eða sé öðrum hvorum megin við 20 milljarðana. Kannski verður að horfa á sérstakan hátt á slíkar stærðir.

Almennt verðum við að hafa í huga í umræðunni að jafnvel þótt við mundum fella niður slíkan gamlan uppsafnaðan halla í lokafjárlögum verður engin gjaldfærsla, það er löngu búið að færa þetta allt til gjalda, það hefur birst í ríkisreikningi þess árs þar sem gjöldin féllu til. Það mun því ekki breyta neinu um afkomuna á ríkissjóði að taka slíkar ákvarðanir, (Forseti hringir.) en það breytir hins vegar öllu varðandi rekstur slíkra stofnana inn í framtíðina.