143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á vettvangi þingsins hefur ekki farið fram nein kynning á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í þingflokkum minni hlutans. Það er leitt að sá góði siður sem hefur verið í þinginu skuli ekki hafa verið haldinn nema það eigi eftir að kynna hér einhverja sérstaka áætlun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í því augnamiði að gefa þingflokkum minni hlutans, þar á meðal þingflokki Bjartrar framtíðar sem studdi þingsályktun sem þær tillögur sem nú hafa litið dagsins ljós eru grundvallaðar á, færi á umfjöllun. Ég geri athugasemd við það á þessum vettvangi og undir þessum lið að engar meldingar hafa borist um það hvort slík kynning standi til. Það er mjög eðlilegt og til bóta fyrir alla umræðuna um stærsta mál núverandi ríkisstjórnar að slík kynning fari fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)