143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að upplýsa mig um að haldinn hefði verið blaðamannafundur á laugardaginn. En það hefur verið til siðs hér í þinginu að þingflokkum hefur verið boðið upp á sérstaka kynningu í aðdraganda slíkra mála. Þetta er risavaxið mál sem kemur hér inn á vettvang þingsins. Ég er ekki að tala um annað en það að menn hefðu getað fengið að kynna sér málið, fengið sérstaka kynningu, fengið að spyrja forsvarsmenn sérfræðingahópsins út úr klukkutíma eða tveimur fyrir þennan svokallaða blaðamannafund.

Það er meðal annars fjallað um það á opinberum vettvangi núna að forseti Íslands hafi fengið sérstaka kynningu á þessu máli í lok síðustu viku sem maður getur svo sem haft ýmsar skoðanir á, hvort það hafi verið nauðsynlegt. Ég held að það sé bara gott fyrir umræðuna og sjálfsögð kurteisi að koma fram við minni hlutann með þeim hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)