143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert við fundarstjórn forseta að athuga, ég tel hana prýðilega. Ég vil þó byrja á að óska okkur öllum, þinginu og almenningi í landinu til hamingju með þær tillögur sem voru kynntar um helgina er varða skuldavanda heimilanna og Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að væru vel í anda hinnar norrænu velferðar.

Ég vil líka segja að það er svolítið sérstakt að heyra menn gagnrýna það hér að einhver leyndarhyggja eða eitthvað annað sé yfir þessu — ég hef ekki heyrt annað en ráðherrar hafi lýst því yfir að það sé sjálfsagt að kynna þetta mál, enda var haldinn blaðamannafundur, öll gögn sem málinu tengjast hafa verið sett inn á netið o.s.frv. — þegar þessi sama stjórnarandstaða ætlaði á sínum tíma að keyra Icesave-samninga í gegnum þingið án þess að sýna þá nokkrum manni. Þessi umræða er því allverulega sérstök. En ég hlakka til, virðulegi forseti, þegar þessi mál koma inn til þingsins til umfjöllunar, og ég vil aftur óska okkur öllum til hamingju með að tillögurnar skuli vera komnar fram.