143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

greiðsluvandi heimilanna.

[15:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Er ég virkilega að heyra rétt? Er það þannig að ríkisstjórnin sé ekki að boða neinar úrlausnir fyrir fólk sem er með lánsveð, sem er í bullandi neikvæðri eiginfjárstöðu, að það eigi enn þá bara að borga inn og borga inn og borga inn af séreignarsparnaðinum sínum á næstu árum? Er ríkisstjórnin sem sagt alveg hætt að horfa til þess að taka sérstaklega á vanda þeirra sem eru í sérstaklega erfiðri stöðu? Hvað með fólkið sem keypti á versta tíma, á árunum 2005–2008, fólkið sem sannanlega, jafnvel eftir almenna aðgerð, verður áfram í lakari stöðu en allir hinir sem hafa tekið verðtryggð lán? Er ríkisstjórnin algjörlega ónæm fyrir þeim vanda? Er fjármálaráðherra í alvöru að halda því fram og segja það hér skýrt að hann búist ekki við neinum viðbótarkostnaði á ríkissjóð til að leysa þann greiðsluvanda sem eftir er í samfélaginu, að það sé engin þörf á frekari aðgerðum ríkisins? Ég bara spyr hæstv. ráðherra: Er það virkilega þannig að hann sé að gefa okkur hér það fyrirheit að það verði engin frekari útgjöld vegna alvarlegs greiðsluvanda í samfélaginu?