143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lánsveð.

[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem máli skiptir og snertir lánsveðshópinn samkvæmt tillögu sérfræðingahópsins er að sá hópur fær mikla réttarbót, hann fær miklu betri stöðu. Hvort hann ætti einnig að fá leiðréttingu í takt við það sem ákveðið var nokkrum dögum fyrir kosningar verður að koma til sérstakrar skoðunar. En lánsveðshópurinn er sannarlega ekki undanskilinn í þeirri miklu vinnu sem sérfræðingahópurinn skilaði af sér. Þetta er tillagan eins og hún birtist okkur í skýrslunni og mér finnst hún vera skynsamleg.

Það þarf þá að taka það til sérstakrar skoðunar hvort þessi tiltekni hópur lántakenda liggur að einhverju leyti óbættur hjá garði eins og hv. þingmaður bendir hér á. Það voru fjögur ár sem gáfust á þeim tíma til að taka á þeim vanda en ekki var gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 að það væri til fjármagn til að klára samkomulagið við lífeyrissjóðina og m.a. í ljósi þess hversu (Forseti hringir.) óviss fjárhæðin var hefur verið beðið eftir þessari niðurstöðu. (Forseti hringir.) Við skulum trúa því að hún verði til gagns og (Forseti hringir.) þessum hópi til bóta.