143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eign Byggðastofnunar á Breiðdalsvík.

134. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eign Byggðastofnunar á Breiðdalsvík, sem er gamla frystihúsið þar. Spurningin er einfaldlega þessi:

„Kemur til greina að mati ráðherra að gefa Breiðdalshreppi eign Byggðastofnunar í frystihúsinu á Breiðdalsvík?“

Hvers vegna set ég þessa spurningu fram, virðulegi forseti? Hún er óvenjuleg en hún er engu að síður sett fram í fullri alvöru. Í kjördæmavikunni tóku fulltrúar Breiðdalshrepps á móti þingmönnum kjördæmisins, að þessu sinni í þessari húseign Byggðastofnunar. Þetta er stórt og mikið hús á besta stað í byggðarlaginu og rekin var mikil starfsemi í frystihúsinu á sínum tíma en starfsemin hefur lagst af og húsið er allt of stórt fyrir fiskvinnslu í dag. Byggðastofnun hefur eignast þetta hús en hreppurinn á hins vegar ýmis tæki og tól sem eru inni húsinu.

Þegar sveitarstjórnarmenn þessa hrepps lýstu fyrir okkur þingmönnum kjördæmisins hvað þeir sæju fyrir sér að mætti nota húsið í þá hreifst ég mjög af þeim áformum þeirra og þeim mikla baráttuhug sem í þeim er hvað varðar þessa húseign. Þeir voru með hugmyndir um að skipta húsinu nokkuð mikið niður og láta hluta af því til ferðaþjónustuaðila sem rekur glæsilegt hótel hinum megin við götuna en vantar húsnæði á háannatíma. Sveitarstjórnarmenn höfðu líka ýmsar aðrar hugmyndir varðandi húsið.

Ef rétt er úr spilað felast í því ótal mörg tækifæri fyrir þetta sveitarfélag, sem flokkast með brothættum byggðum, að hafa fjölbreytta starfsemi í þessu húsi. En ég er ekki alveg viss um að Byggðastofnun muni vinna í því með hreppnum ef hún á þetta hús áfram. Byggðastofnun þarf að sjálfsögðu að greiða fasteignagjöld til hreppsins fyrir þessa eign, sem kom fram að eru um 2 milljónir á ári.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta litla sveitarfélag á í fjárhagslegum vandræðum og hefur ráðið til sín sérfræðing til að fara yfir það. Hreppurinn hefur því enga fjárhagslega burði til að kaupa þetta húsnæði. Ég spurði á fundinum í frystihúsinu hvort sveitarfélagið vildi eignast húsið ef Byggðastofnun afskrifaði það hreinlega og afhenti þeim það til fulls rekstrar og eignar. Svarið við því var já.

Þess vegna er þessi spurning sett fram. Það má auðvitað láta varúðarspurningu fylgja með til hæstv. ráðherra, eins og ráðherra nokkur gerði einu sinni: Væri ef til vill hægt að selja þessa eign á 1 krónu líkt og varðskipið Þór var selt fyrir á sínum tíma?