143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

skipulag hreindýraveiða.

135. mál
[16:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir áhugaverða spurningu. Því er þannig varið að stærsti hluti umsýslu og stjórnar hreindýramála er þegar staðsettur á Austurlandi í dag. Náttúrustofa Austurlands, sem er með starfsstöðvar á Egilsstöðum og í Neskaupstað, annast allar rannsóknir og vöktun hreindýra. Náttúrustofan reiknar jafnframt út og fylgist með stofnstærð, nýliðun og afföllum í hreindýrastofninum og gerir tillögur til Umhverfisstofnunar um æskilega veiði og skiptingu veiða eftir veiðisvæðum og ágangssvæðum. Þannig hefur Náttúrustofa Austurlands árlega gert tillögu um fjölda og mörk ágangssvæða, metið ágang á einstökum jörðum, gert tillögu um árlegan veiðikvóta og skiptingu veiðiheimilda eftir ágangssvæðum með hliðsjón af ágangi hreindýra. Nær undantekningarlaust hafa tillögur náttúrustofunnar verið lagðar til grundvallar endanlegri ákvörðun um þessi atriði eftir aðkomu hreindýraráðs og Umhverfisstofnunar. Hreindýraráð, sem er ráðgefandi, er sömuleiðis staðsett á Austurlandi og er skipað fulltrúum tilnefndum af Austfjörðum.

Jafnframt er starfsemi Umhverfisstofnunar að málefnum hreindýra nánast að öllu leyti staðsett í Norðausturkjördæmi. Fullt stöðugildi er í starfsstöð stofnunarinnar á Egilsstöðum og líklega sem svarar til 15–25% stöðugildis í starfsstöðinni á Akureyri.

Það er þar af leiðandi ekki nema yfirstjórn Umhverfisstofnunar sem leggur lokahönd á tillögur til ráðuneytisins sem er staðsett utan kjördæmisins, en það samsvarar líklega innan við 5% af starfinu. Þessu til viðbótar er það sem lýtur að vinnu að hreindýramálum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þ.e. að taka við tillögum um veiðiheimildir og verðskrá og birting ákvörðunar ráðherra um þessi atriði.

Umhverfis- og auðlindaráðherra telur mikilvægt að sem mest af umsýslu þessara veiða sé á því svæði sem dýrin eru og tekur því undir með fyrirspyrjanda. Jafnframt er það aðalatriði að fyrir þennan nytjastofn íslenskrar náttúru, svo og aðra nytjastofna lands eða sjávar, séu ákvarðanir um nýtingu hans ávallt byggðar á bestu fáanlegri þekkingu og að til grundvallar liggi viðmið um sjálfbæra nýtingu. Náttúrustofa Austurlands hefur verið lykilaðili í þessu starfi og eru í ráðuneytinu til skoðunar tillögur sem lúta að því meðal annars að styrkja aðkomu Náttúrustofu Austurlands að málefnum hreindýraveiða.

Fram undan er að skoða hvernig má einfalda regluverk og stytta boðleiðir í stjórnsýslunni almennt. Ríkisstjórnin samþykkti strax síðasta vor, þá nýtekin við, aðgerðaáætlun til að draga úr reglubyrði sem verið er að hrinda af stað. Stjórnsýslan þarf að vera skilvirk og vera í þágu samfélagsins. Við einföldun regluverks þarf að horfa heildstætt á stjórnsýsluna og samþætta þau verkefni sem fara saman, þvert á stofnanir, án þess að dregið verði úr eðlilegum kröfum og þannig að betri fókus fengist á viðfangsefnið.

Umsýsla og stjórn hreindýraveiða er einn af þeim þáttum sem verða skoðaðir ásamt öðrum verkefnum. Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um breytingar á umsýslu og stjórn hreindýraveiða en verður skoðað samhliða þeirri vinnu sem er fram undan og áður er lýst.

Ef til þess kæmi væri nauðsynlegt að breyta ákvæðum í lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, hvað varðar Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Breytingu á hreindýraráði þyrfti líklega að gera samhliða, einnig þyrfti að breyta ákvæðum um rannsóknir og vöktun hreindýra og þá þyrfti jafnframt að breyta þeirri yfirumsjón sem ráðherra hefur með höndum. Sá ráðherra sem hér stendur er tilbúinn að skoða þetta með jákvæðum augum sem einn af þáttunum í að einfalda regluverkið og meðal annars, eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum, að færa verkefni í auknum mæli út á land, þau sem þar eiga heima.

Ég vil bæta því við undir lokin, af því að ég sé að ég hef aðeins tíma, að hér hefur jafnframt verið lögð fram tillaga til þingsályktunar varðandi sambærilega hluti og hv. þingmaður spyr um, um flutning stjórnsýslu um málefni hreindýra til hreindýraráðs, frá hv. þingmönnum Valgerði Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Allt þetta er til skoðunar.