143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[16:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli hennar lýtur spurningin að því hvort ráðherra telji þörf á endurskoðun 26. gr. þessara laga og stutta svarið við þeirri spurningu hv. þingmanns er já. Ég tel þörf á að gera það. Ég hef orðið var við þá umræðu sem átt hefur sér stað, sérstaklega meðal lækna, ég hef ekki fengið fyrirspurnir um þetta frá öðrum starfsstéttum. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan þýða óbreytt lög, sem samþykkt voru og tóku gildi 1. janúar á þessu ári, að þessir einstaklingar geta ekki stundað sín störf eftir 76 ára aldur. Áður var þetta þannig að þar var heimildin bundin 75 árum og svo var hægt að framlengja það með þaki.

Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þessi regla sem innleidd var í lögin og tók gildi í ársbyrjun er strangari en tíðkast á Norðurlöndunum og einnig í Bretlandi og Þýskalandi. Í Noregi til dæmis er aldursmarkið 75 ár og þar er hægt að framlengja það án þaks og síðan er hægt að sækja um önnur leyfi o.s.frv., þannig að það eru rýmri reglur þar. Þetta er sömuleiðis þannig í Danmörku að þar fellur brott réttur til að reka eigin starfsstofu við 75 ára aldur. Þó fellur ekki niður rétturinn til að kalla sig lækni eða sérfræðing. Í Svíþjóð og Finnlandi eru engin ákvæði um aldurshámark, eins er í Bretlandi og Þýskalandi ekki heldur að finna ákvæði um aldurshámörk, eingöngu almennar kröfur gilda þar um hæfi einstaklinga til að gegna þessum störfum.

Í ljósi þess sem ég hef rakið hér, í ljósi þeirrar umræðu og athugasemda sem við höfum fengið út úr þessum faghópum tel ég eðlilegt að við endurskoðum 26. gr. laganna um heilbrigðisstarfsmenn og við þá vinnu verði höfð hliðsjón af því regluverki sem gildir í nágrannalöndunum. Ég hef þegar falið starfsmönnum ráðuneytisins að undirbúa vinnuna og hún er hafin. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp til breytinga á þessu ákvæði á komandi vorþingi. Stutta svarið við ágætri spurningu hv. þingmanns er því já.