143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[16:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bæði þakka fyrirspyrjanda fyrir spurningu og hæstv. ráðherra fyrir svar. Ég vil jafnframt benda á að aldurshámörkin, 70 ár, eru líklega fundin upp fyrir 125 árum við allt aðrar aðstæður en nú eru. Langlífi hefur aukist og ég tel að endurskoða þurfi miklu fleiri aldursákvæði og að ekki megi að blanda þeim saman við töku lífeyris. Fullfrískt fólk er sett út af vinnumarkaði, því til skaða og skaðar jafnvel samfélagið. Hér er mikil auðlind og í allri þeirri umræðu sem á sér stað um mannréttindi er fólki mismunað á grundvelli aldurs. Það tel ég algjörlega ófært.