143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:56]
Horfa

Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir góða og gagnlega og skemmtilega umræðu um frumvarpið. Hér hafa komið fram mjög margar góðar ábendingar og gagnlegar hugleiðingar sem ég treysti að fylgi málinu væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar. Það er kannski ákveðin heppni eða jafnvel merki um að málið eigi sér ákveðið karma, ef svo má segja, að hér í þinginu séum við með nefnd sem hefur það hlutverk að fjalla bæði um innanríkismál og menntamál og væntanlega verður kallað eftir umsögnum úr öllum áttum.

Umræðuna um ventilinn svokallaða, eða leiðir til að vísa málinu til ráðherra, tel ég mjög gagnlega og ég held að mikilvægt sé að ræða það áfram.

Hugleiðingarnar um íslenska nafnahefð og íslenska málhefð kveikir kannski ákveðna fortíðarþrá eða nostalgíu í þeim sem hér stendur en af einhverri ástæðu fór ég að hugsa um rifflaðar franskar kartöflur og illa bakaðar pítsur úr æsku. Þegar ég var ungur voru erlendar matarhefðir að ryðja sér til rúms á Íslandi og miklar áhyggjur voru af því að við mundum hratt og örugglega færast til þess að borða bara kjúklinga, franskar kartöflur og drekka kókómjólk og íslensk matarhefð mundi hverfa. En það var nú eiginlega alveg „omvent“ ef svo má segja, með leyfi forseta. Við það að fjölbreytnin jókst og erlendar matarhefðir bárust til landsins vaknaði líka mikill vilji og áhugi á íslenskum matarhefðum sem mörgum þótti kannski orðnar dálítið klénar áður. Við Íslendingar fórum aftur á fullt í að háma í okkur svið og hrútspunga og skola því niður með eldsúrri mysu og þótti og þykir það frábært. Ég hef enga trú á öðru en að Íslendingar sjái hversu dýrmæt íslensk nafnahefð er og við munum jafnvel frekar fylkja okkur um hana og gerast þjóðleg þegar við megum gera það og það er enginn sem skipar okkur að gera það.

Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir skemmtilega umræðu og upprifjun á upplifun sinni af því að bera venjulegt nafn, ef svo má segja, eða algengara nafn en ég hef sjálfur reynslu af. Hún minntist á áhyggjur af því og kannski með þakklæti að hún hefði ekki haft greiða leið til að skipta um nafn í æsku eða á unglingsárum og ég get svo sem tekið undir það. Ég sjálfur berandi óvenjulegra nafn hafði oft drauma um að breyta nafninu mínu í Jón eða eitthvað algengara [Hlátur í þingsal.] en þá var ég líka svo heppinn að eiga foreldra sem höfðu að einhverju leyti vit fyrir mér og möguleika til þess eftir að ég varð stálpaður að breyta um nafn og þá breyta jafnvel aftur til baka. Ég hafði á tímabili mikinn áhuga á íslenska nafninu Stáli, sem er ótrúlegt en satt löglegt nafn á Íslandi, og hefði þá getað kallað mig Stála Proppé og verið kallaður Stáli Propp og mér fannst það mjög töff. Ég á það kannski inni einhvern tíma í ellinni að breyta nafninu. Ég hef engar áhyggjur af því að Íslendingar séu almennt svo vitlausir að þeir taki svona afdrifaríkar ákvarðanir nema að vel og vandlega íhuguðu máli.

Ég vil þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu og hlakka til að fylgjast með málinu áfram.