143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

niðurskurðartillögur fjárlaganefndar.

[14:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Voðalega er undarlegt að hlusta alltaf á þessa útúrsnúninga hv. þingmanns sem talar ýmist í hring eða í andstöðu við sjálfan sig, byrjar hér á því að skammast yfir einhverri stefnu sem hann gefur sér að eigi að verða ofan á [Háreysti í þingsal.] og svo þegar ég er að útskýra það fyrir hv. þingmönnum að ég telji að sú stefna verði ekki ofan á …

(Forseti (EKG): Þögn í þingsalnum.)

Þegar ég útskýrði fyrir hv. þingmanni að ég telji að það muni ekki reynast nauðsynlegt að grípa til þeirra ráða sem hann nefndi þá kemur hv. þingmaður hingað upp og fer að skammast yfir því og er þá mjög ósáttur við það að ríkisstjórnin muni líklega ekki gera það sem hann var ósáttur við að hún ætlaði að gera í fyrri fyrirspurn sinni. Þetta er náttúrlega mjög undarleg nálgun á hlutina og virðist snúast um það eitt að vera á móti hverju sem ríkisstjórnin ætlar að gera eða ætlar ekki að gera. Svo víxlar hv. þingmaður eftir því hver hann telur að sé stefna ríkisstjórnarinnar.

Auðvitað hafa menn þurft að velta við öllum steinum. Hverjum steini hefur verið velt við í vinnu við fjárlagagerðina og menn hafa meðal annars og að sjálfsögðu þurft að skoða stóra útgjaldaliði eins og bótakerfið. Eðlilega urðu menn að skoða það. Hv. þingmaður ætti að fagna því ef mönnum tekst að finna sparnaðarleiðir annars staðar til að geta að fullu staðið (Forseti hringir.) vörð um bótakerfið þannig að það verði miklu sterkara en það var nokkurn (Forseti hringir.) tíma í tíð síðustu ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)