143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara í fyrirspurn til hæstv. forseta um hvort maður gæti treyst því að hér sé um endanlegt plagg að ræða varðandi fjáraukann vegna þess að í dag hafa orðið ýmsar breytingar á frumvarpi til fjárlaga. Það voru þingflokksfundir, að mér skilst hjá stjórnarflokkunum, þannig að ég treysti á að við séum með endanlegt plagg og miðum við það í umræðunni. Ég treysti svo á að hv. formaður fjárlaganefndar og varaformaður verði við umræðuna þannig að við getum komið okkar skilaboðum til fjárlaganefndarinnar varðandi einstök mál.

Það var nefnilega svo þegar umræðan hófst í dag að hv. formaður fjárlaganefndar flutti ræðu og kom með afar skýr skilaboð: Það voru kosningar í vor. Það var kosin ný ríkisstjórn sem þurfti að skipta um kúrs.

Hv. formaður fjárlaganefndar sagði líka: Það er komin ný ríkisstjórn og nýjar áherslur. Það er einmitt það sem ég ætla að gera að umtalsefni í upphafi varðandi frumvarp til fjáraukalaga, það er komin ný ríkisstjórn og hjá henni sjáum við greinilega stefnubreytingu, við sjáum aukið misrétti. Við höfum fengið ríkisstjórn ójöfnuðar. Það kemur sífellt betur og betur í ljós að nýja ríkisstjórnin ætlar að verða hin grófasta hægri stjórn þar sem notuð er á ný hin gamla aðferð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að hygla hinum ríku en láta þá sem minnst hafa sitja eftir.

Þeir sem lifa til dæmis eingöngu á greiðslum frá Tryggingastofnun, lífeyrisþegar, hafa ekki fengið neina hækkanir og það er heldur ekki áformað að þær komi um áramót. Lægsta skattþrepið fær engar lækkanir á skattprósentu. Það er aukning á nefsköttum sem við vitum hvernig virka. Það eru hækkuð gjöld, skráningargjöld í háskólann sem leggur 15 þúsund kr. á hverja þá fjölskyldu sem er með háskólanema. Útvarpsgjaldið er hækkað. Bæði gjöldin eru meira eða minna notuð til fjármögnunar eins og hverjir aðrir skattar hjá ríkinu en ganga ekki til viðkomandi stofnana.

Misrétti jókst gríðarlega á árinu 2000 fram til ársins 2007 í íslensku samfélagi, eins og raunar víða í vestrænum heimi, það virðist ætla að aukast aftur. Í millitíðinni höfðum við ríkisstjórn vinstri flokkanna þar sem jöfnuðurinn var aukinn, við snerum af fyrri braut og það tókst með skattkerfisbreytingum og ýmsum stjórnvaldsákvörðunum að auka verulega jöfnuðinn að nýju, raunar andstætt flestum öðrum löndum. Verið er að hverfa aftur í gamla farið, grímulausa hægri pólitík. Það á að létta sköttum af þeim sem hafa hærri tekjurnar og af fyrirtækjum sem jafnvel standa betur en þau hafa nokkurn tíma gert. Það á að draga úr auðlegðarskattinum o.s.frv.

Það er þyngra en tárum taki eftir að hafa farið í kosningabaráttu eftir allt það sem á undan var gengið og hafa þurft að skerða kjör, m.a. lífeyrisþega, að sitja undir því að menn lofa gríðarlega miklu — það átti að kalla til baka allar skerðingarnar sem höfðu orðið áður, og býsna margar voru tilgreindar — og horfa svo upp á það í fjáraukalögunum að þær skerðingar eru metnar upp á 780 millj. og deilast á 45 þúsund einstaklinga. Það er ekki nema hluti sem fær þær vegna þess að þeir sem eru eingöngu á bótum fá ekki neitt á meðan þeir sem hafa aðrar tekjur en lífeyri frá Tryggingastofnun fá hækkanir. Þetta var eina aðgerðin sem kom í framhaldi af kosningunum þrátt fyrir að við gætum ekki skilið annað en draga ætti allar skerðingar til baka strax. Að vísu hefur í millitíðinni orðið „strax“ öðlast nýja merkingu. Það hefur fengið merkinguna „einhvern tíma í náinni framtíð“ eða „á næstu árum“. Síðan eru tvær breytingar boðaðar í fjárlögum árið 2014. Það eru hvort tveggja aðgerðir sem hefðu komið til framkvæmda hvort sem var frá fyrri ríkisstjórn og eru annars vegar breyting á skerðingarprósentu, það var 45% skerðing og fer niður í 38,38, ef ég man rétt, þ.e. skerðingarhlutfallið, og hins vegar samkomulag sem gert var varðandi skerðingu lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega. Þar var næsta skref tekið og það átti að koma um áramót. Þetta tvennt kemur um næstu áramót og það er forvitnilegt að vita hvort menn telji að verið sé að standa við gefin loforð vitandi það að þetta hafði verið skert og við sem vorum í fyrrverandi ríkisstjórn höfðum gengist við því.

Eitt af því sem er mikið í umræðunni er hvernig ástandið var þegar ný ríkisstjórn tók við, við höfum orðið vitni að því sjónarspili. Talað er um að ástandið sé miklu verra en menn höfðu reiknað með og fjöldi atriða talinn upp sem hefur breytt ástandi ríkissjóðs og sagt að ný ríkisstjórn þurfi að glíma við allt annað verkefni en lofað hafði verið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir hvaða breytingar urðu á síðustu fjórum árum þar sem menn glímdu við halla á ríkissjóði sem var rúmlega 14% af landsframleiðslu, sem hefur svo sigið niður þannig að í þessum fjáraukalögum, ef fer eins og er í nýjustu tillögunum, verður hann kominn niður fyrir 1%. Ef þetta er ekki gríðarlegur árangur á ekki lengri tíma veit ég ekki hvað er hægt að mæla sem mikinn árangur.

Þegar menn skoða við hverju þeir tóku skýtur skökku við að tala um að ástandið sé óvenjuslæmt og byrja svo á því að afsala sér tekjum. Það var tilbúið. Menn höfðu tilbúnar tillögur um að breyta veiðileyfagjaldinu, hverfa frá skattlagningu á gistinætur, sem lagðist fyrst og fremst á útlendinga, það höfðu menn tilbúið. Annað hefur svo meira og minna þurft að bíða. Menn höfðu þriggja mánaða uppgjör hvað varðaði tekjur og hrakspár um að tekjur yrðu miklu lægri vegna minnkandi hagvaxtar. Síðan kom sex mánaða uppgjörið og þá hafði þetta algjörlega snúist við, tölurnar höfðu gerbreyst og nú erum við komin með 10 mánaða uppgjör frá deginum í dag og ástandið í sjálfu sér að nálgast það að vera eðlilegt miðað við það sem lagt var upp með.

Það má í sjálfu sér segja að ríkisstjórnin hafi byrjað á því að afsala sér tekjum og létta gjöldum á þeim sem kannski hefðu borið þau hvað mest en svo dregið að taka inn breytingar sem skipta mjög miklu máli fyrir til dæmis lífeyrisþegana. Við getum líka tekið þá sem eru eingöngu á atvinnuleysisbótum og missa núna í desember, að því er ég get best séð, desemberuppbótina. Þetta er sérstaklega athyglisvert miðað við að áður fyrr þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stjórnuðu á góðæristímanum þar sem atvinnuleysi var mjög lítið en var engu að síður til staðar og nokkrir þurftu að búa við lágar atvinnuleysisbætur, var aldrei borguð uppbót á þær bætur. Það var aldrei borguð desemberuppbót en það var aftur á móti gert á lífeyri og hafði verið gert í mörg ár og eins hjá öllu launafólki.

Fyrri ríkisstjórn tók upp desemberuppbót, taldi það vera sanngirnismál að sá hópur sem er með hvað lökust kjörin á Íslandi, með innan við 180 þús. kr. fyrir skatt í atvinnuleysisbætur í fullu starfi, fengi desemberuppbót. Í ár hefði þetta kostað ríkissjóð 250 millj. kr. og borgast af Atvinnuleysistryggingasjóði en einhverra hluta vegna hefur það ekki komið til framkvæmda. Ég hef ekki tekið þetta upp í fyrirspurnum eða í umræðum hér í þinginu einfaldlega vegna þess að ég hef beðið eftir því hverja klukkustund að það kæmi inn. Kannski hefur það komið inn á fundinum áðan, ég veit það ekki, ég vona það vegna þess að þarna eru 50–60 þúsund kr., fyrir skatt, sem viðkomandi einstaklingar fá. Ef við setjum þetta í samhengi við það sem er svartur blettur á íslensku samfélagi, að við þurfum að glíma við fátækt og það er fólk sem sækir sér aðstoð í jólamánuðinum þá er þetta kannski tvöföld, þreföld eða fjórföld sú upphæð sem þar kemur til útdeilingar hjá öllum þeim félögum sem sinna því. Það munar því um þetta, það skiptir máli. Þetta er ekki í fjáraukanum og lýsir þeim forgangi sem ég var að tala um áðan.

Þegar við tölum um loforðasvikin, annars vegar skuldaleiðréttinguna, sem ég ætla ekki að eyða tíma í hér, við fáum tækifæri til að ræða það betur síðar, þar sem stór og mikil aðgerð sem átti að vera yfir 300 milljarðar plús — og ég þori að nefna þá tölu einu sinni enn þrátt fyrir að ég hafi ítrekað verið sakaður um lygi, en logið var að hæstv. forsætisráðherra hafi aldrei nefnt þessa tölu. Það er búið að spila viðtalið við hann þar sem hann var einn í viðtali í kosningasjónvarpi og ræddi stefnu Framsóknarflokksins og hann sagði: Þið nefnið töluna 300 milljónir en þetta verður jafnvel meira og á allt að renna til heimilanna. En látum það liggja á milli hluta.

Þegar maður skoðar aðgerðirnar og fer inn í það sem er eitt af stefnumiðunum, við skulum vona að það verði samt á næstu dögum eða vikum, átti að jafna stöðu leigjenda og húseigenda. Það átti að bæta kjör þeirra sem leigja. Hvað er þeim boðið í þessum aðgerðum í fyrstu lotu? Jú, þeir geta lagt inn á reikning svo þeir geti keypt. Hvernig byggir maður upp leigumarkað með því? Ég hef ekki séð hvernig á að bæta inn húsaleigubótum eða húsnæðisbótum en guð láti gott á vita, þetta kemur vonandi í framhaldinu.

Sem betur fer er fullt af góðum hlutum inni í fjáraukanum og margt af því er frá fyrri ríkisstjórn. Það er ágætt að halda því vel til haga vegna þess að teknar voru ákvarðanir sem hafa lifað ríkisstjórnarbreytingarnar af þrátt fyrir að menn væru að gleðjast yfir því að geta nú skipt algerlega um kúrs. Þar get ég nefnt gjaldfrjálsar tannlækningar. Þar var tekið mjög veigamikið skref strax á þessu ári og samningar gerðir til nokkurra ára. Þetta verður þannig að tannlækningar verða gjaldfrjálsar upp að 18 ára aldri og er eingöngu greitt eitt komugjald á ári sem getur numið um 2.500 kr. Þetta er gríðarlegt réttlætismál fyrir barnafólk og ég ætla að vona að menn láti það áfram í friði. Svo er það jafnlaunaátak í heilbrigðisstéttum hjá ríkinu þar sem konur eru í miklum meiri hluta en menn gerðu sér grein fyrir því eftir hörð átök og umræður hver staða heilbrigðisstétta væri. Unninn var vandaður samanburður á því hvernig þessar stéttir kæmu út miðað við aðrar og við sáum að svokallaðar kvennastéttir, þar sem konur eru í meiri hluta, hafa dregist verulega aftur úr og eru launin allt önnur en í sambærilegum stéttum, þ.e. þar sem fólk er með svipaða menntun í viðskiptaumhverfi o.s.frv. Þarna voru settir út peningar í gegnum fjáraukann og fær að skila sér inn í fjáraukalögin.

Það var líka tekin ákvörðun um það í byrjun árs að fara í stórt átak til að vinna gegn ofbeldi gegn börnum. Við fengum á okkur holskeflu hvað það varðar og dómskerfið og allir eru að vinna úr því. Það er allt hér inni. Sama gildir með náttúruvá. Við erum að tala um fjárskaðann sem varð á Norðurlandi í kuldakastinu, síldardauðann í Kolgrafafirði, kal í túnum, þetta er sett inn, sanngirnisbæturnar sem hafa verið miklu hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Allt var þetta, ef ég tek burt kal í túnum, í rauninni til umræðu og ákvarðað af fyrri ríkisstjórn. En það eru nokkur atriði sem hafa dáið í fjáraukalagafrumvarpinu og er í rauninni með ólíkindum að þau skuli ekki vera hérna. Ég skil ekki enn þá hvers vegna. Það er annars vegar 125 millj. kr. framlag til Landspítalans sem kom þannig til að strax í janúarmánuði þurftu menn að takast á við flensufarald, nóróveirusýkingar og fleiri sýkingar á Landspítalanum og aukið álag var á spítalanum. Við vissum að þar var búið að skera verulega mikið niður og menn höfðu ekki svigrúm til að færa fólk til innan spítalans öðruvísi en að kalla út viðbótarstarfsfólk og opna jafnvel deildir. Þá kom fyrirspurn í gegnum velferðarráðuneytið og inn til ríkisstjórnarinnar um hvort grípa mætti til aðgerða til að mæta þessu. Svarið frá ríkisstjórninni var já en Landspítalinn beðinn að halda vel utan um kostnaðinn og síðan kæmi formleg umsókn um að fá það bætt í fjáraukalögum.

Það kom fyrir ríkisstjórn með sundurliðaðri og nákvæmri áætlun um hvað hefði verið gert, hvernig þetta hafi verið unnið, hvað það kostaði. Það var yfirfarið af velferðarráðuneytinu og öllum þeim sem best þekktu til. Niðurstaðan var að Landspítalinn ætti að fá 15 millj. kr. Það er hvergi í fjáraukanum. Það er búið að henda því út og menn bæta því bara við hallann á Landspítalanum. Svona finnst mér ekki hægt að koma fram við fólk. Þetta er enn þá sérkennilegra þegar það er borið saman við afgreiðsluna varðandi kindurnar og kalið, að menn skuli ætla að fara svona með fólkið sem vinnur á Landspítalanum og hefur reynt að vinna þar eftir fjárlögum.

Hitt málið var að í niðurskurðinum á sínum tíma var ákveðið að minnka framlög til Fasteigna ríkisins. Það er borgað af heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Landspítalinn er ekki inni í því og ekki Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Menn höfðu skert þetta og minnkað þannig við framkvæmdir en það átti síðan að ganga til baka í áföngum. Eftir að gengið hafði verið frá fjárlögum kom tilkynning frá Fasteignum ríkisins um að þeir ætluðu að innheimta hærri húsaleigu af þessum stofnunum. Þá var málið rætt ítarlega í ríkisstjórn á þeim tíma. Annað tveggja yrði að gerast: Að menn lækkuðu það sem Fasteignir ríkisins fengju, það fjármagn, eða mættu því með sérstökum greiðslum til viðkomandi stofnana. Eftir afgreiðslu í ríkisstjórninni fyrrverandi var ákveðið að senda út eða fjármálaráðuneytið gaf heimild og sendi raunar tilkynningu á allar heilbrigðisstofnanir um að þær mundu fá fjármagn til að standa straum af þessum mismun. Þetta eru allt upp í 20 milljónir á stofnun eins og á Suðurlandi, Vesturlandi, Austurlandi sem kemur svo ekki fram í fjáraukalögum. Það þýðir að þeir aðilar verða að gera svo vel að fara í niðurskurð til að mæta þessu eða auka hallann. Þetta tel ég vond vinnubrögð og óheiðarleg gagnvart þeim stofnunum sem vinna á okkar vegum.

Það er af nógu að taka þegar við skoðum tillögurnar í heild. Það ber að fagna því að verið sé að draga til baka skerðingar á rannsóknarsjóðum á þessu ári en um leið harmar maður að það skuli vera áframhaldandi niðurskurður inni í fjárlögunum. Rannsóknasjóðurinn og Tækniþróunarsjóðurinn fá til baka þá peninga sem þar voru en markáætlunin ekki. Það ber líka að fagna því að menn ætla að opna hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum til að koma til móts við eða létta álagið og stytta tímann sem fólk er inni á lyflækningadeildinni á Landspítalanum.

Það eru líka undarlegar ákvarðanir eins og í sambandi við Nám er vinnandi vegur þar sem aðilar vinnumarkaðarins, velferðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið sameinuðust um að reyna að nota eða réttara sagt vega upp á móti atvinnuleysi ungs fólks með því að bjóða því í nám. Sem betur fer tókst þetta mjög vel sem hefur skilað sér í því að atvinnulausu fólki hefur fækkað og þar af leiðandi þurfti minni peninga í þetta átak. Nú eigum við eftir að fá það og ég skora á hv. fjárlaganefnd að skoða mjög vel á milli umræðna hver fjármagnaði akkúrat þetta átak vegna þess að það kom fyrst og fremst frá Atvinnuleysistryggingasjóði en líka frá menntamálaráðuneytinu og ríkinu. Nú er allt í einu búið að taka þann lið út og ýmsa aðra liði og búa til lið inni í fjáraukanum sem er ávísun á útgjöld á næsta ári. Það er athyglisvert að skoða bls. 2 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þar sem stendur beinlínis, enda leggjast þeir í sjálfu sér gegn þessu en þora samt ekki að stoppa það, að ekki sé ætlunin að nýta þær heimildir fyrr en á næsta ári. Það eru settar 300 millj. kr. til hliðar í fjáraukalögum sem búið er að lýsa yfir að séu til að bregðast við óvæntum útgjöldum, launabreytingum og öðru slíku. Það er búið að taka það og setja í púllíu og veita heimild til að fara með það yfir áramót hjá menntamálaráðuneytinu.

Það sama gerist með forsætisráðuneytið sem tínir til fullt af liðum og býr til einn lið sem á að vera húsafriðunarliður og ýmis verkefni sem tengjast því. Það er hið besta mál í sjálfu sér en það er verið að búa til fjárheimild núna seinni hluta desember. Það verður ekki ráðstafað krónu af því á þessu ári þannig að þarna eru menn að búa til sjóð fyrir næsta ár í staðinn fyrir að gera það sem er eðlilegast, að fara með þetta inn í fjárlögin og láta afgreiða það sem sjálfstæðan útgjaldalið þar.

Ég hefði getað haldið áfram og nefnt til dæmis framkvæmdirnar sem voru dregnar til baka, jafnvel mjög hagkvæmar framkvæmdir, til að mynda við hjúkrunarheimili inni á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi sem náðist gott samstarf við sveitarfélagið um, áætlun upp á nokkur ár. Framkvæmdirnar byrjuðu á þessu ári, á fyrri hluta ársins en það er bara slegið af jafnvel þótt hægt sé að sýna fram á hagkvæmnina. Menn eru eiginlega að tala um vaktarlínu ef hægt er að orða það þannig, það er hægt að vera með sama eldhúsið, sömu næturvaktina og umsjónina. Þetta leysir af húsnæði úti í bæ sem er orðið úrelt, færir það inn á heilbrigðisstofnunina. Hús er nýtt sem er vannýtt í dag. Nei, því er hent út á sama tíma og menn eru að kalla eftir fjárfestingum. Ríkið dregur sig svo mikið til baka að það hefur aldrei verið minna af fjárfestingum ríkisins en í ár.

Ég er ekki búinn með nema hluta af því sem mig langaði til að fjalla um sem tengist fjáraukalögunum en tíminn er búinn. Ég fæ vonandi tækifæri til að koma síðar í umræðunni og fara betur yfir önnur atriði sem ég hef ekki nefnt.