143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar, ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Í fyrsta lagi varðandi skógareldana og það þegar ófyrirséðir atburðir gerast sem enginn hefði getað gert ráð fyrir í fjárlögum, þá er liður í fjárlögum Svíþjóðar — ég vona að ég fari rétt með, þetta er eftir minni, ég vona að þingheimur virði það við mig — sem ber heitið ýmis útgjöld, sem á í raun að dekka allt það sem er algjörlega ófyrirséð. Þeir nota ekki fjáraukalög nema í ýtrustu neyð. Þannig skilst mér að Svíar hafi þetta.

Það er líka þannig að þegar búið er að ákveða rammann á vorin hafa ráðherrar heimild til að færa til innan síns málaflokks. Mér skilst að það sé fyrirkomulag sem við Íslendingar ætlum að reyna að taka upp með einum eða öðrum hætti, að minnsta kosti voru tillögur síðustu ríkisstjórnar í þá veru. Mér skilst að núverandi frumvarp sé eitthvað í þá áttina en ég hef að sjálfsögðu ekki séð það þannig að ég veit ekki hvaða leið verður farin.

Varðandi kjarasamningana þá geri ég mér fyllilega grein fyrir því að það er erfiðara við að eiga og væntanlega afar erfitt að setja einhvern lið sem ber heitið ýmis útgjöld og á að dekka einhverjar hækkanir eða lækkanir, en ég held samt að ég geti fullyrt, án þess þó að hafa mikið fyrir mér í því, að meiri sátt sé um það að reyna að halda ró á hagkerfinu, halda aga á ríkissjóði og ná hagstæðum samningum bæði til hagsbóta fyrir atvinnulífið og launafólk.